Hlynur Páll Pálsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins. Hann tekur við starfinu af Ragnheiði Skúladóttur og hefur störf 20. mars næstkomandi.
Í tilkynningu frá Íslenska dansflokknum segir að Hlynur hafi lokið BA-prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og BA-prófi í leiklist frá Listaháskóla Íslands.
„Hlynur starfaði sem fræðslustjóri Borgarleikhússins frá 2014 auk þess að vera framkvæmdastjóri sviðslistahópsins 16 elskendur á sama tímabili. Hlynur hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival, sýningarstjóri í Borgarleikhúsinu og sviðsmaður hjá Þjóðleikhúsinu auk þess sem hann hefur verið aðstoðarleikstjóri í fjölda stórsýninga á borð við Mary Poppins, Billy Elliot og Matthildi,“ segir í tilkynningunni.
Hlynur Páll nýr framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins
