Nuggets var á heimavelli þar sem liðið hafnaði í 2.sæti deildarkeppninnar vestanmegin og þeir hófu leikinn með látum; höfðu tíu stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 23-13. Heimamenn höfðu frumkvæðið stærstan hluta leiksins þó Spurs hafi þjarmað að þeim þegar á leið. Lokatölur 90-86 fyrir Denver Nuggets.
Serbneski risinn Nikola Jokic var allt í öllu eins og stundum áður með 21 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar á meðan Rudy Gay var stigahæstur í liði Spurs með 21 stig.
Í nótt hófust einnig undanúrslitin í austri þegar Toronto Raptors tók á móti Philadelphia 76ers. Þar eignaði Kawhi Leonard sér sviðið og skoraði 45 stig auk þess að rífa niður 11 fráköst.
Vann Raptors þrettán stiga sigur, 108-95, og er komið í 1-0 forystu í einvíginu.