Hundruð mótmælenda brutu sér leið inn í aðalsal þingsins í Hong Kong eftir margra klukkustunda langt umsátursástand. Í þinginu unnu mótmælendurnir spjöll, brutu rúður og máluðu slagorð á veggi. Órói hefur ríkt í Hong Kong um nokkurra vikna skeið vegna umdeilds frumvarps sem hefði heimilað framsal á fólki til Kína.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að tugir mótmælenda hafi fyrst brotið rúðu á þinghúsinu. Hundruð þeirra hafi svo streymt inn í húsið þar sem þeir ollu eyðileggingu. Einn mótmælendanna er meðal annars sagður hafa spreyjað svartri málningu á táknmynd Hong Kong í þingsalnum. Annar hafi haldið gamla breska nýlendufánanum á lofti.
Lögreglan, sem hefur sætt gagnrýni fyrir að taka harkalega á mótmælendum, varaði mannfjöldann ítrekað við því að hún beitti valdi ef mótmælendurnir héldu áfram að þrengja að þinghúsinu. Hún lét þó aldrei til skarar skríða, jafnvel eftir að hópurinn braut sér leið inn í húsið. Mótmælendurnir eru sagðir hafa verið búnir plasthjálmum, pappaskjöldum og regnhlífum.
Átökin brutust út í kjölfar friðsamra mótmæla í dag í tilefni af því að tuttugu og tvö ár eru liðin frá því að bresks stjórnvöld skiluðu Hong Kong í hendur Kína. Mótmælin undanfarið hafa beinst að framsalslögum sem hefðu heimilað að Hong Kong-búar væru framseldir til meginlandsins.
Stjórnvöld í Hong Kong féllust á að láta frumvarpið niður falla ótímabundið. Mótmælendur hafa engu að síður haldið áfram að láta í sér heyra og krefjast afsagnar Carrie Lam, æðsta embættismanns sjálfstjórnarsvæðisins.
