Körfubolti

Þessir voru valdir í lið áratugarins í NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lið áratugarins 2010-2019.
Lið áratugarins 2010-2019. Samsett mynd/Twitter/@NBATV
Áratugurinn 2010-2019 var gerður upp á dögunum hjá NBA-deildinni nú þegar styttist í það að 2019-20 tímabilið hefjist.

NBA sjónvarpsstöðin valdi á dögunum lið áratugarins í NBA-deildinni en NBATV fékk nokkra valinkunna sérfræðinga til að velja sig þrjú úrvalslið fyrir árin 2010 til 2019.

Valnefndin var mynduð að mönnum sem starfa hjá NBA.com og NBA TV og hafa það því að atvinnu sinni að framleiða efni um NBA körfuboltann. Í hverju liði voru tveir bakverðir og þrír framherjar eða miðherjar.

LeBron James og Kevin Durant voru upp á sitt besta á þessum áratug, ferill Kobe Bryant og Dwyane Wade var að enda og ferlar manna eins og Anthony Davis og Giannis Antetokounmpo að byrja. Allt þetta þurfti valnefndarmeðlimir að meta og þeim tókst að setja saman þrjú úrvalslið, fyrsta, annað og þriðja.

Í fyrsta úrvalsliðinu eru bakverðirnir Stephen Curry og James Harden og svo framherjarnir LeBron James, Kevin Durant og Kawhi Leonard.





LeBron James og Kevin Durant voru kosnir í Stjörnuleik NBA öll tíu árin og þeir voru einnig valdir í úrvalslið NBA í öll skipti nema eitt þegar Durant var ekki valinn. Kevin Durant er með 28,0 stig, 7,4 fráköst og 4,4 stoðsendingar að meðaltali á áratugnum en LeBron James er með 26,9 stig, 7,7 fráköst og 7,6 stoðsendingar að meðaltali.

Stephen Curry breytti NBA-deildinni á þessum árum með þriggja stiga skotum sínum og var tvisvar kosinn bestur en hann er með 23,5 stig í leik á áratugnum. James Harden fór úr því að vera besti sjötti maðurinn í að verða besti leikmaður deildarinnar og er með 24,3 stig í leik. Kawhi Leonard er með lökustu tölfræðin á þessum fimm en vann tvo titla með tveimur liðum þar sem hann var kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna í bæði skiptin. Hann var einnig valinn besti varnarmaðurinn tvisvar.

Hér fyrir neðan má síðan sjá hvernig hin tvö úrvalsliðin líta út.

Í öðru úrvalsliðinu eru bakverðirnir Chris Paul og Russell Westbrook ásamt þeim Anthony Davis, Blake Griffin og Carmelo Anthony.

Í þriðja úrvalsliðinu eru svo bakverðirnir Dwyane Wade og Kobe Bryant ásamt þeim Paul George, LaMarcus Aldridge og Giannis Antetokounmpo.



 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×