Erlent

Mikil átök milli mótmælenda og öryggissveita í Beirút

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá átökunum í Beirút í kvöld.
Frá átökunum í Beirút í kvöld. AP/Hussein Malla

Til átaka kom á milli mótmælenda og öryggissveita í Beirút í Líbanon í kvöld og stóðu þau yfir í nokkrar klukkustundir. Öryggissveitir skutu táragasi og gúmmíkúlum að mótmælendum og þurfti að flytja einhverja á sjúkrahús. Hundruð mótmælenda höfðu komið saman i borginni en umfangsmikil mótmæli hafa staðið yfir í Líbanon á undanförnum vikum.

Mótmælendur hafa mótmælt spillingu og slæmu ástandi efnahags landsins svo eitthvað sé nefnt. Að mestu má þó rekja upphaf mótmælanna til ætlana ríkisstjórnarinnar fyrrverandi að skattleggja netsímtöl og hækka virðisaukaskatt.

Í harðbakkann sló í kvöld þegar meðlimir öryggissveita Líbanon fjölmenntu í Beirút og brutu mótmælin á bak aftur. Það var gert eftir einhverjir mótmælendur reyndu að brjóta sér leið inn á öryggissvæði þar sem finna má þinghús Líbanon og skrifstofur ríkisstjórnar landsins, samkvæmt ríkismiðli Líbanon sem Reuters vitnar í. Vitni segja mótmælendur hafa verið elta um götur borgarinnar og barða af öryggissveitum.



Al Jazeera segir þó að átökin hafi byrjað á því að hópur ungra manna, sem séu hliðhollir ráðandi fylkingum landsins, hafi ráðist á búðir mótmælenda í borginni. Öryggissveitir hafi komið mótmælendunum til varnar.



Frá því að Saad al-Hariri sagði af sér sem forsætisráðherra í október hefur ekkert gengið í viðræðum á milli ráðandi fylkinga um myndun nýrrar ríkisstjórnar.



Ástandið í Líbanon þykir slæmt og hafa erlendir fjárfestar fryst flestar fjárfestingar þar til mynduð verður ný ríkisstjórn sem geti gripið til umbóta, samkvæmt Reuters.

Mótmælendur krefjast þess einnig að ný ríkisstjórn verði skipuð aðilum sem tengjast ekki ráðandi stjórnmálaflokkum í Líbanon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×