Erlent

Boðar frekari að­gerðir vegna tíðra á­rása á gyðinga

Atli Ísleifsson skrifar
Grafton Thomas leiddur út í járnum úr dómshúsi, en hann er grunaður um árásina í Monsey á laugardag.
Grafton Thomas leiddur út í járnum úr dómshúsi, en hann er grunaður um árásina í Monsey á laugardag. AP

Borgarstjóri New York borgar hefur tilkynnt um ýmis úrræði sem ætlað er að takast á við það sem hann kallar neyðarástand þegar kemur að árásum á gyðinga í borginni. Fimm gyðingar voru á laugardaginn særðir í hnífaárás á heimili rabbína í borginni þar sem verið var að fagna ljósahátíðinni Hanukkah.

Raunar hafði borgarstjórinn Bill de Blasio kynnt hluta aðgerðaráætlunarinnar aðeins degi fyrir árásina á laugardag en í henni fólst meðal annars að auka löggæslu í hverfum gyðinga í borginni.

Eftir árásina sagði de Blasio að enn fleiri lögreglumenn verði settir á vakt í þeim hverfum borgarinnar þar sem gyðingar eru fjölmennir.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar.Getty

Donald Trump forseti segir einnig að þjóðin verði að sameinast um að berjast gegn þeirri ógn sem gyðingaandúð sé.

Sjónarvottar segja að árásarmaðurinn á laugardag hafi ráðist inn á heimili rabbínans í Monsey, norður af New York borg, tekið upp stóran hníf eða sveðju. og byrjað að stinga gesti.

Grunaður árásarmaður var síðar handtekinn. Yfirvöld segja hinn handtekna vera 37 ára karlmann frá Greenwood Lake í New York ríki, Grafton Thomas að nafni.


Tengdar fréttir

Bandaríkjamenn sameinist gegn gyðingaandúð

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvatt samlanda sína til þess að sína samstöðu í kjölfar stunguárásar á heimili rabbína í New York-fylki í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×