Metfjöldi kórónuveirutilfella greindist í Peking, höfuðborg Kína, á mánudag, annan daginn í röð og hefur verið kallað eftir því að takmarkanir verði settar aftur í gildi. Útbreiðsluna má rekja til Xinfadi markaðarins þar sem ýmis hrávara er seld.
Markaðurinn er sá stærsti sinnar tegundar í Asíu og fer um 80 prósent sölu landbúnaðarvara frá Peking, bæði innanlands og utan, fram á markaðnum. Markaðnum hefur nú verið lokað og hafa tugir þúsunda íbúa borgarinnar og næsta nágrennis verið skimaðir fyrir veirunni.
Þá hefur farið af stað yfirgripsmikið verkefni til að hafa uppi á öllum þeim sem hafa farið nýlega á markaðinn eða verið í nánd við gesti hans. Þá hefur sumum skólum verið lokað á ný til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.
„Hættan á að faraldurinn breiðist frekar út er mjög mikil þannig að við ættum að grípa til róttækra aðgerða,“ sagði Xu Hejiang, talsmaður borgaryfirvalda í Peking, á blaðamannafundi á mánudag.
Xinfadi er á stærð við nærri 160 fótboltaleikvangi og er um 20 sinnum stærri en sjávarafurðamarkaðurinn í Wuhan þar sem kórónuveiran kom fyrst upp. Þúsundir tonna matvæla ganga kaupum og sölum á Xinfadi dag hvern.
Yfirvöld í Peking staðfestu á mánudag að 36 ný tilfelli kórónuveirunnar hafi greinst á sunnudag, 14. júní, og 36 tilfelli greindust einnig á laugardag. Svo margir hafa ekki greinst með veiruna á dag frá því í síðari hluta marsmánaðar. Þá hafa 79 tilfelli komið upp á aðeins fjórum dögum sem er það hæsta frá því í febrúar.