Innlent

Eigandi Priksins lofar háum fundarlaunum fyrir tölvuna sína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Einn eigenda Priksins er með skrifstofu við Ingólfsstræti þar sem brotist var inn í nótt.
Einn eigenda Priksins er með skrifstofu við Ingólfsstræti þar sem brotist var inn í nótt. Vísir/vilhelm
Svo virðist sem innbrotsþjófur hafi fleygt stærðarinnar steinsteypuklumpi inn um rúðu á Ingólfsstræti 6 skömmu eftir miðnætti. Þar er skrifstofa Geoffrey Skywalker, eins eigenda skemmtistaðarins Priksins, til húsa og segir hann rúðubrotið ekki eina tjónið sem þar varð í nótt.

Tölvu hans, borðtölvu af gerðinni iMac, hafi jafnframt verið stolið af skrifstofunni. „Hún er eldri týpa og hefur engan verðstimpil á götunni. En er hinsvegar stútfull af verkefnum síðustu ára og hlaðin miklu tilfinningalegu gildi,“ skrifar Geoffrey á Facebook-síðu sína. Þessu til staðfestingar birtir hann mynd af tölvunni, sem er „alsett límmiðum að framan,“ eins og Geoffrey orðar það.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu drepur jafnframt á innbrotinu í dagbók sinn í nótt. Færslan lætur ekki mikið yfir sér:

00:59 Tilkynnt um innbrot / þjófnað, fyrirtæki í hverfi 101. Brotin rúða farið inn og stolið tölvu.

Geoffrey er þó sýnilega ósáttur með vendingar næturinnar. Hann býðst til að reiða fram há fundarlaun handa þeim sem getur útvegað honum upplýsingar „sem leiða mig og tölvuna saman aftur,“ eins og sjá má í færslu hans hér að neðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×