Körfubolti

Paul George sá fyrsti í 60 ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
George spyr eflaust Luka hvernig hann fari að því að setja öll þessi skot niður þrátt fyrir meiðsli er þeir mætast næst.
George spyr eflaust Luka hvernig hann fari að því að setja öll þessi skot niður þrátt fyrir meiðsli er þeir mætast næst. Ashley Landis/Getty Images

Önnur af stórstjörnum Los Angeles Clippers hefur alls ekki fundið taktinn gegn Dallas Mavericks í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Staðan í einvígi liðanna er 2-2 en spekingar spáðu því að Clippers kæmust nokkuð auðveldlega áfram.

Í liði Dallas er hins vegar leikmaður að nafni Luka Dončić. Þessi 21 árs gamli Slóveni átti mögulega sinn besta leik á ferlinum í nótt er hann – nánast einn síns liðs – jafnaði metin í einvíginu.

Dončić var á annarri löppinni allan leikinn eftir að meiðast illa í þriðja leik liðanna. Hann spilaði í gegnum sársaukann og tryggði Dallas á endanum sigur með frábærri flautukörfu undir lok framlengingar. Er hann yngsti leikmaður sögunnar til að skora sigurkörfu er flautan gellur í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.

Skoraði hann 43 stig, tók 17 fráköst og gaf 16 stoðsendingar er Dallas vann sigur, 135-133.

Kawhi Leonard, ofurstjarna Clippers, er eflaust ósáttur með að hafa ekki spilað betri vörn á ungstirnið í leiknum sem var eins og áður sagði tæpur vegna meiðsla. Mesta áhyggjuefni Clippers er þó frammistaða Paul George sem á að kallast hin stjarna liðsins.

Sá hefur engan veginn fundið taktinn í úrslitakeppninni. Í nótt varð hann fyrsti leikmaður úrslitakeppninnar í 60 ár sem hittir úr minna en 25% skota sinna þrjá leiki í röð. Síðast gerði Bob Cousy það árið 1960.

„Ef ég væri að skjóta boltanum betur væri staðan í einvíginu allt önnur,“ sagði George í viðtali eftir leik. Alls hitti George úr þremur af 14 skotum sínum fyrir innan þriggja stiga línuna í leiknum. Þá hitti hann aðeins úr einu af sjö þriggja stiga skotum sínum. 

Var hann með níu stig, átta fráköst og þrjár stoðsendingar. 

Í síðustu þremur leikjum hefur hann hitt úr aðeins tíu af 47 skotum fyrir innan þriggja stiga línuna. Af 25 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna hafa svo aðeins fjögur farið ofan í körfuna.

Það er ljóst að ef Clippers – sem talið var að gætu farið alla leið – þarf á því að halda að George vakni til lífsins sem fyrst. Annars mun undrabarnið frá Slóveníu einfaldlega senda hann sem og allt Clippers-liðið í sumarfrí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×