Forstjóri Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA, Patrick Ky, segist telja að þær breytingar sem gerðar hafi verið á Boeing MAX þotunum geri það að verkum að þær teljist nú öruggar. Þetta kemur fram í viðtali við Ky hjá Bloomberg. Forstjórinn segist telja mögulegt að vélarnar fái grænt ljós til að fljúga í Evrópu fyrir lok þessa árs. Í frétt Bloomberg segir að eftir tilraunaflug sem farin voru í september, sé stofnunin nú að fara yfir tilskipun sem mun votta flughæfi vélanna og er jafnvel von á henni í næsta mánuði.
Þegar tilskipunin hefur verið gefin út fær almenningur fjórar vikur til að koma með athugasemdir. EASA ætlar þó einnig að fara fram á að Boeing bæti við skynjara í vélarnar sem á að auðvelda flugmönnum að bregðast við ef hætta steðjar að. Sá skynjari verður þó ekki kominn í vélarnar fyrr en eftir um það bil tvö ár. En miðað við orð Ky í viðtalinu við Bloomberg virðist EASA sætta sig við öryggi vélanna eins og þær eru í dag og segir Ky að þriðji skynjarinn muni aðeins auka öryggi þeirra enn frekar.
Byr í segl Boeing
Þessi orð forstjórans blása vafalaust byr í segl Boeing sem hafa verið í stökustu vandræðum með MAX vélarnar en þær hafa ekki verið í notkun síðan í mars 2019 eftir tvö mannskæð flugslys með skömmu millibili.
Icelandair hefur notast mikið við Boeing MAX vélarnar og í ágúst komst félagið að samkomulagi við flugvélaframleiðandann að það félli frá fyrirhuguðum kaupum á fjórum vélum til viðbótar auk þess sem afhendingu á öðrum sex vélum yrði seinkað.