Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og vísar í skýrslu um rannsókn CEBR. Þar segir að viðbrögð kínverskra stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum verði þess valdandi að hagkerfi Kína muni vaxa hlutfallslega meira en hagkerfi Bandaríkjanna og Evrópuríkja á næstu árum.
Kína var fyrsta landið sem tókst á við kórónuveirufaraldurinn og greip strax til harðra aðgerða til að hefta útbreiðslu Covid-19 um landið. Kínverjar hafa því ekki þurft að ganga í gegn um endurteknar bylgjur sóttvarnaaðgerða með fylgjandi samdrætti fyrir efnahagslífið og áætlanir gera ráð fyrir tveggja prósenta hagvexti þar í landi árið 2020.
Bandaríkin hafa hins vegar komið einna verst út úr faraldrinum. Yfir 330.000 hafa látið þar lífið af völdum Covid-19 og um átján og hálf milljón manna greinst með kórónuveiruna. Stjórnvöld hafa gripið til einhverra efnahagslegra aðgerða, svo sem með aðgerðapökkum þar sem Bandríkjamönnum hafa verið gefnir peningar, en atvinnuleysi í landinu fór upp í 14,7 prósent síðastliðinn apríl, en var í 6,7 prósentum í nóvember síðastliðnum.
Mun örari vöxtur í Kína
Samkvæmt skýrslu CEBR mun hagkerfi Bandaríkjanna ná sér að einhverju leyti á næstu árum. Gert er áð fyrir að hagvöxtur verði um 1,9 prósent á árunum 2022 til 2024, en um 1,6 prósent á árunum eftir það. Skýrslan gerir hins vegar ráð fyrir örari vexti kínverska hagkerfisins, eða um 5,7 prósent á ári til ársins 2025 og 4,5 prósent á árunum 2026 til 2030.
Annað sem skýrslan gerir ráð fyrir er að breska hagkerfið muni njóta um 4 prósenta hagvaxtar á árunum 2021 til 2025 og 1,8 prósenta hagvaxtar frá 2026 til 2030, eftir að hafa dregist saman á þessu ári.
Þá er gert ráð fyrir að hagkerfi Indlands verði orðið stærra en hagkerfi Þýskalands árið 2027, og það taki sömuleiðis fram úr hagkerfi Japans árið 2030.