Körfubolti

Hitti ekkert fyrr en allt var undir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry kláraði leikinn gegn Miami Heat fyrir Golden State Warriors.
Stephen Curry kláraði leikinn gegn Miami Heat fyrir Golden State Warriors. getty/Thearon W. Henderson

Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors unnu silfurlið síðasta tímabils, 120-112, eftir framlengdan leik í NBA-deildinni í nótt.

Curry hitti illa gegn Miami en fann fjölina sína þegar mest lá við og setti niður tvær þriggja stiga körfur undir lok framlengingarinnar. Hann endaði með 25 stig og ellefu stoðsendingar. Andrew Wiggins og Kelly Oubre skoruðu 23 stig hvor fyrir Golden State. Bam Adebayo skoraði 24 stig fyrir Miami sem hefur tapað þremur leikjum í röð.

Damian Lillard sýndi snilli sína þegar Portland Trail Blazers sigraði New Orleans Pelicans, 124-126. 

Lillard skoraði 43 stig auk þess að gefa sextán stoðsendingar. Hann var sérstaklega öflugur undir lokin og skoraði átta af síðustu tíu stigum Portland í leiknum. Liðið hefur unnið sex leiki í röð. Zion Williamson skoraði 36 stig fyrir New Orleans.

Utah Jazz hélt sigurgöngu sinni áfram með 96-114 sigri á vængbrotnu liði Los Angeles Clippers. Þetta var níundi sigur Utah í röð en liðið er með besta árangur allra liða í NBA.

Donovan Mitchell skoraði 24 stig fyrir Utah og Rudy Gobert var með 23 stig og tuttugu fráköst. Lou Williams skoraði sextán stig fyrir Clippers sem var án bæði Pauls George og Kawhis Leonard.

Eftir þrjú töp í röð vann topplið Austurdeildarinnar, Philadelphia 76ers, fimm stiga sigur á Houston Rockets, 118-113. 

Joel Embiid sneri aftur í lið Philadelphia og var með 31 stig, ellefu fráköst og níu stoðsendingar. Seth Curry skoraði 25 stig og Tobias Harris var með 24 stig og fimmtán fráköst.

Úrslit næturinnar

  • Golden State 120-112 Miami
  • New Orleans 124-126 Portland
  • LA Clippers 96-114 Utah
  • Philadelphia 118-113 Houston
  • Orlando 107-89 NY Knicks
  • Boston 114-122 Atlanta
  • Washington 130-128 Denver
  • Minnesota 128-134 Indiana
  • Chicago 105-102 Detroit
  • Memphis 122-113 Oklahoma

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×