Körfubolti

NBA dagsins: Tveir leik­menn með 50 stig, loks tapaði Utah Jazz og bestu til­þrifin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jamal Murray skráði sig í sögubækur NBA-deildarinnar í nótt og Nikola Jokić hlóð í þrefalda tvennu.
Jamal Murray skráði sig í sögubækur NBA-deildarinnar í nótt og Nikola Jokić hlóð í þrefalda tvennu. Douglas P. DeFelice/Getty Images

Nóttin var fjörug í NBA-deildinni í körfubolta. Joel Embiid gerði sér lítið fyrir og skoraði 50 stig í sigri Philadelphia 76ers. Jamal Murray gerði það sama í sigri Denver Nuggets og þá vann Los Angeles Clippers sigur á Utah Jazz.

Síðarnefnda liðið hafði unnið níu leiki í röð.

Kawhi Leonard skoraði 29 stig er Clippers vann Utah 116-112. Hann tók einnig fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Varamaðurinn Lou Williams skilaði einnig sínu líkt og venjulega. Hann skoraði 19 stig ásamt því að taka tvö fráköst og gefa tvær stoðsendingar. Donovan Mitchell fór fyrir sínum mönnum að venju, hann skoraði 35 stig, gaf fimm stoðsendingar og tók fjögur fráköst.

Philadelphia 76ers vann nauman sjö stiga sigur á Chicago Bulls, 112-105. Segja má að Joel Embiid hafi lagt grunninn að sigrinum með 50 stigum hvorki meira né minna. Ef það er ekki nóg þá má benda á að hann gaf fimm stoðsendingar og reif niður 17 fráköst. Ótrúleg frammistaða í alla staði.

Zach LaVine er áfram aðalmaðurinn hjá Bulls en hann skoraði 30 stig, gaf fimm stoðsendingar og tók fimm fráköst.

Jamal Murray vildi ekki vera minni maður en Embiid. Í 18 stiga sigri Denver Nuggets á Cleveland Cavaliers, 120-103, skoraði hann einnig 50 stig ásamt því að gefa tvær stoðsendingar og taka sex fráköst. Er hann fyrsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar til að skora 50 stig án þess að taka vítaskot.

Nikola Jokić var nokkuð rólegur í stigaskorun í nótt en endaði samt með þrefalda tvennu. Hann skoraði 16 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók tólf fráköst.

Klippa: NBA dagsins 20. febrúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×