Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, lét dómaratríó leiksins heyra það í viðtali að leik loknum. Viðari Erni var eðlilega heitt í hamsi að leik loknum enda stefndi allt í frækinn sigur Hattar.
Það er þangað til Tyler Sabin setti niður þriggja stiga körfu sem reyndist sigurkarfa leiksins og KR-ingar héldu heim á leið með stigin tvö.
Þá er vert að benda á þá staðreynd að heimamenn í Hetti fengu 50 prósent fleiri villur í leiknum en gestirnir úr Vesturbæ Reykjavíkur. Alls fengu heimamenn 32 villur gegn 21 hjá gestunum.
„Mér fannst frammistaða okkar mjög góð, sérstaklega í fyrri hálfleik. Auðvitað gerum við nokkur mistök og þegar KR keyrði upp hraðann gáfum við þeim stundum full auðvelda leið að körfunni,“ sagði Viðar Örn um frammistöðu sinna manna í leiknum.
„Ætli villufjöldinn hafi ekki verið 30-15 á tímabili. Þarna erum við komnir með fimm villur en þeir enga eftir fjórar mínútur. Þeir geta síðan farið að stoppa okkar sóknir með að brjóta viljandi á okkur. Kannski spiluðum við harðari vörn og brutum meira af okkur, en það eru samt alltof mörg mistök sem hafa gríðarleg áhrif á okkur. Lykilmenn eru flautaðir út úr leiknum en við fáum ekkert hinu megin. Þar liggur leikurinn,“ sagði Viðar um dómgæsluna og hélt svo áfram.
„Mér fannst frammistaða okkar mjög góð og ég vil hrósa mínum mönnum. Það sem er hins vegar vanvirðing við leikinn er frammistaða þriggja manna hér í kvöld. Það er gjörsamlega óboðlegt að fá svona sendingar – gjörsamlega óboðlegt! Ég fullyrði að frammistaðan sem við sýndum hér í kvöld á alltaf að duga til sigurs ef eðlilega er að umgjörð staðið.“
Höttur leikur næst gegn Tindastóli á Sauðárkróki strax á sunnudag og því ekki hægt að hugsa of lengi um tap kvöldsins.
„Við verðum að vera tilbúnir þar. Vonandi verur allt eðlilegt á Sauðárkróki og við höldum áfram að skila svona góðri frammistöðu,“ sagði Viðar Örn að endingu í viðtali við Vísi að loknu eins stigs tapi Hattar gegn KR í gærkvöld.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.