Ríkisstjórn Johnsons setti Indland á lista yfir áhættusvæði þann 23. apríl, þó ákvörðunin hefði verið tilkynnt fjórum dögum áður. Fólk sem kemur frá skilgreindum áhættusvæðum er skikkað til að vera í sóttkví á þar til skilgreindum sóttkvíarhótelum.
Heilbrigðisyfirvöld á Bretlandi tilkynntu í gær að 1.313 hefðu greinst smitaðir af indverska afbrigðinu. Samkvæmt frétt Sky News er það nærri því þrefalt fleiri en greindust með afbrigðið fyrir þremur vikum.
Hið indverska afbrigði er talið smitast rúmlega 50 prósent betur manna á milli en afbrigðið sem hefur verið ráðandi þar í landi og kallast breska afbrigðið, eða Kent afbrigðið á Bretlandi.
Eins og áður segir stendur til að slaka á sóttvörnum á Bretlandi á morgun. Meðal annars stendur til að leyfa fólki að koma saman í meira mæli innandyra, til að mynda á heimilum og á krám. Sérfræðingar óttast að það muni hafa slæm áhrif og þá sérstaklega á yngra fólk, sem er minna bólusett og líklegra til að koma saman í miklu fjölmenni.
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir vísindamenn nokkuð örugga á því að þau bóluefni sem til eru veiti vörn gegn indverska afbrigðinu. Hins vegar geti það farið um óbólusett fólk eins og eldur í sinu.
"We have a high degree of confidence that the vaccine will overcome."
— Sophy Ridge on Sunday (@RidgeOnSunday) May 16, 2021
Health Secretary @MattHancock says early data gives a "degree of confidence" that the #COVID19 vaccines work against the Indian variant.
#Ridge: https://t.co/3tZ5MrLvaA pic.twitter.com/8rvPi1bwpl
Hann sagði indverska afbrigðið að verða ráðandi í sumum hlutum Bretlands eins og Bolton og Blackburn. Í Bolton hafi margir endað á sjúkrahúsi og yfirgnæfandi meirihluti þeirra hefði ekki látið bólusetja sig.
Í samtali við Sky hvatti Hancock þá sem hafa ekki verið bólusettir en eiga rétt á því, að fara sem fyrst.
Hefur greinst á landamærum Íslands
Indverska afbrigðið hefur greinst á landamærum Íslands. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði í vikunni að það hefði gerst tvisvar sinnum og viðkomandi hefðu verið einangraðir í sóttvarnarhúsi. Annars eru langflestir þeirra sem greinast smitaðir á landamærunum með breska afbrigðið.
Þá sagðist Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, vongóður um að Íslendingum tækist vel að hemja afbrigðið hér á landi. Hann sagði einnig að ekkert benti til þess að bóluefni virki ekki gegn afbrigðinu.
Covid-19 hefur þó verið í hraðri útbreiðslu á Seychelleseyjum þar sem margir bólusettir hafa greinst með indverska afbrigðið. Um 60 prósent íbúa hafa verið fullbólusettir með bóluefnum frá Kína. Um þriðjungur þeirra sem hafa greinst smitaðir á eyjunum hafa verið fullbólusettir.