Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá flugvélina sem þykir líklegust til að leiða byltinguna í rafmagnsflugi, ES-19. Sænska fyrirtækið Heart Aerospace stefnir núna að því að hún verði farin að fljúga með farþega eftir fimm ár, um mitt ár 2026.

Heart Aerospace er einmitt annað þeirra fyrirtækja sem Icelandair hefur núna tengt sig við með viljayfirlýsingu. Miðað við nítján farþegasæti og fjögurhundruð kílómetra flugdrægi gæti sænska rafmagnsvélin verið eins og sniðin fyrir íslenska innanlandsflugið.
Hin viljayfirlýsing Icelandair er við bandaríska félagið Universal Hydrogen. Það hefur hannað orkuskiptabúnað sem gæti breytt Dash-8 vélum Icelandair í vetnisknúnar vélar.

Icelandair segir í yfirlýsingu að bæði Heart Aerospace og Universal Hydrogen hafi kynnt spennandi lausnir sem henti vel fyrir innanlandsflug og hægt væri að taka í notkun innan fárra ára. Stuttar flugleiðir og greiður aðgangur að endurnýjanlegri raforku setji Ísland í lykilstöðu hvað varðar orkuskipti í innanlandsflugi. Segist Icelandair telja sig vera í góðri stöðu til að verða á meðal fyrstu flugfélaga heims til að gera innanlandsflug kolefnislaust.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: