„Það voru stór mistök að verja tíma með honum, að ljá honum trúverðugleika með því að vera á staðnum,“ sagði Gates í viðtali við CNN í gær. Sagðist hann snætt nokkrum sinnum með Epstein en bundið enda á samskiptin þegar ljóst varð að þau myndu ekki skila neinu.
Fjársýslumaðurinn var handtekinn fyrir að hafa nauðgað og misnotað fjölda stúlkna undir lögaldri. Hann framdi sjálfsvíg í fangaklefa í New York í ágúst árið 2019.
Gengið var frá skilnaði Gates og eiginkonu hans Melindu á dögunum en Gates neitaði að svara fyrirspurn Wall Street Journal um það hvort tengsl hans við Epstein hefðu átt þátt í því að hjónabandið gekk ekki upp. Orðrómur hefur verið uppi þess efnis.
„Þetta er tími íhugunar og nú þarf ég að horfa til framtíðar,“ sagði Gates við CNN. „Fjölskyldan mun gróa eins vel og hún getur.“
Samkvæmt skilmálum skilnaðarins munu næstu tvö ár leiða í ljós hvort Bill og Melinda geta unnið saman að góðgerðastofnun sinni. Ef ekki, mun Bill greiða fyrrverandi eiginkonu sinni fyrir að ganga frá samstarfinu.
Gates segist þó vonast til þess að Melinda komi áfram að stofnuninni.
„Það væri örugglega best fyrir stofnunina. Melinda býr yfir ótrúlegum styrkleikum sem gera stofnunina betri.“