„Það eru svo mörg tækifæri fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn. Við eigum svo stórkostlegt frumkvæði í öllum þessum greinum,“ sagði Svandís á Bessastöðum í dag.
Hún segir ráðuneytið jafnframt vera sterkt hvað varðar loftsslagsmál og að hún hafi möguleika til að draga úr losun gróðurhúsa lofttegunda. „Þannig að þetta er sterkt ráðuneyti fyrir grænan ráðherra líka,“ segir hún með bros á vör.
Mun sakna sms-a frá Þórólfi
Svandís segist munu sakna heilbrigðisráðuneytisins og öllu því sem því hefur fylgt síðustu fjögur ár.
„Ég á eftir að sakna minnisblaðanna frá Þórólfi, ég fékk reyndar eitt mjög gott í gærkvöldi. Og sms-anna frá honum um fjölda smita og svo framvegis, þó maður vilji helst að þau hætti að koma bara yfir höfuð,“ segir hún.
Tíminn í heilbrigðisráðuneytinu hafi verið stórkostlega lærdómsríkur en að ánægjulegt verði að skila því í hendur Willums Þórs Þórssonar, sem sé öflugur stjórnmálamaður.
Hún segir heilbrigðisráðuneytið vera stórt og mikið ráðuneyti sem taki til þjónustu sem kemur öllum við. Hún svarar því játandi að Willum Þór eigi ærið verkefni fyrir höndum að setja sig inn í svo flókinn málaflokk.