Innherji

Framkvæmdastjóri SAF: „Gott að sjá að stefnuplaggið fari ekki ofan í skúffu“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna komi inn á margar af þeim áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir. Hann býst við að eiga gott samtal við stjórnvöld um skuldastöðu ferðaþjónustunnar þótt hennar sé ekki getið neins staðar í sáttmálanum.

„Það er ánægjulegt að sjá að stjórnarsáttmálinn kemur inn á margar af þeim áskorunum sem eru fram undan,“ segir Jóhannes Þór Skúlason.

Stjórnvöld ætla að fylgja eftir stefnunni sem var mörkuð í skýrslunni Framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustu til 2030. Henni verður fylgt eftir með aðgerðaáætlun sem styður við bæði langtímamarkmiðin og áhersluatriðin tólf sem henni fylgdu.

„Það er gott að sjá að stefnuplaggið fari ekki ofan í skúffu heldur komi inn í stjórnarsáttmálann,“ bætir hann við.

Í stjórnarsáttmálanum var ekki komið sérstaklega inn á það hvernig ætti að taka á skuldastöðu ferðaþjónustunnar. Aðspurður kveðst Jóhannes ekki hafa áhyggjur af því að málið verði tekið fyrir á kjörtímabilinu.

„Það er auðvitað ýmislegt sem við í atvinnugreininni hefðum bætt við sáttmálann en ég hef engar áhyggjur af því sem er ekki nefnt þarna sérstaklega. Stjórnarsáttmáli er ekki tæmandi listi og við höfum verið í samtali við ríkið í tengslum við skuldastöðu ferðaþjónustunnar sem er afar erfið,“ segir Jóhannes.

Þá fagnar Jóhannes því að stjórnvöld ætli að framlengja markaðsátakið Saman í sókn. Það var hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda til að neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins á ferðaþjónustuna.

„Næstu tvö eða þrjú árin verða eins konar Ólympíuleikar í markaðssetningu til ferðamanna og þá skiptir máli að við séum reiðubúin,“ segir Jóhannes.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×