Eins og Vísir hefur greint frá hné sonur Sigurðar, Árni Þórður niður vegna líffærabilunar. Sigurður, sem gegnir nafninu Siggi Stormur vegna veðurlýsinga sinna, lýsti því einlæglega hvernig það hefur verið að takast á við svo lífshættuleg veikindi í viðtali við Vísi. Þjóðin hefur fylgst með en ósk Sigga á Facebook um hlýja strauma frá velviljuðu fólki vakti mikla athygli.
Fyrir liggur að um lífshættulegan sjúkdóm er að ræða en nú hafa orðið afgerandi breytingar á heilsu Árna Þórðar.
„Nú virðist sem kraftaverkið sé að gerast. Hann var vakinn fyrir viku og nú fyrir helgi var hann tekinn úr öndunarvél,“ segir Siggi nú. Hann segir að í þessu felist grundvallarbreytingar.
„Hann verður þó áfram á gjörgæslu en það gæti þó breyst í næstu viku. Hann er alveg ótrúlegur eftir tvo og hálfan mánuð í öndunarvél,“ segir Siggi. En Árni Þórður er ekki orðinn þrítugur og nýtur æsku sinnar og hreysti í þessari viðureign; baráttu fyrir eigin lífi. Siggi bætir því við að hann voni að hann og fjölskyldan þurfi ekki að lifa svo hræðilega tíma aftur í bráð sem þessi hefur verið.