Skoðun

Hring­rásar­hag­kerfi kosninga­lof­orða

Þórður Gunnarsson skrifar

Árið 2018 lofaði Samfylkingin því fyrir sveitastjórnarkosningar að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Bjóða átti öllum börnum á aldrinum 12 til 18 mánaða leikskólapláss. Vorið 2018 var 800 nýjum leikskólaplássum lofað fyrir kosningar. Sex nýjum leikskólum.

Staðan fjórum árum síðar er að ekkert hefur breyst. Biðlistar eru ennþá jafnlangir eða lengri. Síðastliðið haust voru svokallaðar Ævintýraborgir kynntar til sögunnar. Er þar um að ræða stæður af færanlegum vinnuskúrum sem hafa verið innréttaðir sem daggæslurými fyrir börn. Ekki ósvipuð aðstaða og starfsmenn Impregilo nutu við byggingu Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma.

Ný hverfi á borð við Hlíðarenda eru orðin full af fólki og íbúar þar þurfa að koma börnum sínum yfir þvera borgina á leikskóla. Íbúar Laugardal þurfa að keyra börn í leikskóla upp í Grafarvog. Svona mætti lengi telja. Ekki einu sinni Borgarlínan myndi leysa þetta vandamál.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar boða nú - árið 2022 - leikskólapláss fyrir öll 12 til 18 mánaða börn. Allir sjá hvernig gekk að standa við þetta sama loforð fyrir fjórum árum síðan. Það var hreinlega ekki gert. Er með ólíkindum að sama loforði sé teflt fram óbreyttu nú.

Hringrásarhagkerfið er eitt af þeim samtímahugtökum sem njóta mikillar hylli um þessar mundir. Einn af lykilþáttum hringrásarhagkerfisins er ekki síst aukin endurvinnsla. Erfitt er að segja hvort endurvinnsla kosningaloforða falli að hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, en Samfylkingin virðist svo telja.

Hringrásarhagkerfi kosningaloforða Samfylkingarinnar skilar engu gagnlegu. Sömu hlutunum er lofað kosningar eftir kosningar en ekkert gerist og ekkert breytist. Meirihlutinn í borginni veldur ekki verkefninu og kominn tími til að skipta þeim út. Ævintýraborgirnar eru því miður skýjaborgir.

Höfundur er hagfræðingur og óskar eftir stuðningi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 18-19.mars




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×