Breska ríkisútvarpið hefur eftir Pútín að ráðamenn í Úkraínu séu ekki tilbúnir að leita sameiginlegra lausna og þeir séu ósamkvæmir sjálfum sér.
Fyrr í vikunni sagði Dmitry Peskov, talsmaður Kreml, að Rússar hefðu afhent úkraínskum stjórnvöldum lykilgögn svo hægt væri að ráðast í friðarviðræður og því væri það á valdi Úkraínu að ráðast í þær viðræður. Selenskí sagði hins vegar að Úkraína hefði engin slík gögn fengið.
Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- David Malpass, forseti Alþjóðabankans, áætlar að skemmdir á innviðum og byggingum í Úkraínu nemi um 60 milljörðum Bandaríkjadala, um 7.700 milljörðum íslenskra króna, vegna árásar Rússa.
- Selenskí segir að Úkraínumenn þurfi um sjö milljarða dala á mánuði til að vega upp á móti því efnahagslega tapi sem rekja má til innrásarinnar.
- Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að Bandaríkjastjórn muni senda varnar- og vopnabúnað fyrir andvirði 800 milljónum dala til Úkraínumanna, til viðbótar við það sem áður hafi verið sent.
- Þjóðþingin í Eistlandi og Lettlandi samþykktu í gær ályktun þar sem talað er um „þjóðarmorð“ í tengslum við aðgerðir rússneska hersins í Úkraínu.
- Selenskí segir að rússnesk stjórnvöld hafi hafnað tillögu Úkraínustjórnar um vopnahlé um helgina. Rússlandsstjórn hefur ekki tjáð sig um málið.
- Megináhersla Rússa virðist nú vera að ná algerri stjórn á austurhluta Úkraínu og koma upp landleið að Krímskaga.
Hér má sjá vakt gærdagsins á Vísi.
