Musk skrifaði undir kaupsamning í maí en hann á fyrir 9,2 prósent í Twitter. Lauslega reiknað samsvara 44 milljarðar dala um sex billjónum króna.
Í bréfi sem Musk hefur sent til forsvarsmanna Twitter segir hann fyrirtækið ekki hafa staðið við kaupsamninginn með því að útvega honum ekki nánari upplýsingar um raunverulegan fjölda falskra reikninga og svokallaðra botta á samfélagsmiðlinum.
Eins og fram kom í frétt Vísis í gær hafa forsvarsmenn Twitter lengi sagt að fjöldi þessara reikninga samsvari um fimm prósentum af um 230 milljónum daglegum notendum samfélagsmiðilsins. Musk hefur dregið það í efa og sakað Twitter um að veita sér ekki nægjanlega góðar upplýsingar.
Musk og hans fólk segir ekki hægt að meta raunverulegt verðmæti Twitter án þessara upplýsinga.
Forsvarsmenn Twitter sögðu frá því í gær að um milljón falskir reikningar og bottar væru fjarlægðir af samfélagsmiðlinum á degi hverjum. Bottarnir væru mun færri en fimm prósent heildarnotenda en til að fá það hlutfall út, greina starfsmenn fyrirtækisins þúsundir reikninga sem valdir eru að handahófi.
Bret Taylor, stjórnarformaður Twitter, tísti um ákvörðun Musks fyrir skömmu og sagði að stjórnin ætlaði sér að tryggja að kaupsamningnum yrði framfylgt og að dómsmál yrði höfðað gegn Musk.
The Twitter Board is committed to closing the transaction on the price and terms agreed upon with Mr. Musk and plans to pursue legal action to enforce the merger agreement. We are confident we will prevail in the Delaware Court of Chancery.
— Bret Taylor (@btaylor) July 8, 2022
Jafnvel þó Musk takist að sannfæra dómara um fella kaupsamninginn niður gæti hann þurft að greiða Twitter einn milljarð dala.
Allt frá því hann gerði upprunalegt kauptilboð sitt í Twitter hafa verið uppi efasemdir um að Musk hafi raunverulega ætlað sér að kaupa samfélagsmiðilinn. Stærstur hluti auðæfa hans er bundinn í hlutabréfum og hafa lækkanir á mörkuðum komið niður á sjóðum hans. Þá hefur virði Twitter einnig lækkað og hefur það að hluta til verið rakið til ummæla Musks.
Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar er virði hlutabréfa Twitter nú 36,81 dalir. Samkvæmt kauptilboðinu sem Musk skrifaði undir á hann að kaupa hlutinn á 54,2 dali.