Viðskipti innlent

Kröfur upp á tæpa 22 milljarða í þrota­bú þriggja fé­laga tengdum Primera

Bjarki Sigurðsson skrifar
Flugvél hins sáluga Primera Air.
Flugvél hins sáluga Primera Air. Vísir/Getty

Skiptum á þremur félögum tengdum flugfélaginu Primera Air lauk þann 22. júlí síðastliðinn. Samtals voru kröfur upp á rúma 22 milljarða í félögin Primera Air ehf., PTG hf. og PI ehf.

Flugfélagið var tekið til gjaldþrotaskipta þann 3. október árið 2018 en öllum starfsmönnum félagsins hafði verið sagt upp tveimur dögum áður. Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu sem birt var í dag var skiptum lokið á félögunum þremur þann 22. júlí síðastliðinn.

Samþykktar veðkröfur í bú Primera Air ehf. námu tæpum tveimur milljörðum króna og samþykktar almennar kröfur námu tæpum 3,7 milljörðum króna. Upp í veðkröfurnar fengust 259 milljónir króna og í almennu kröfurnar 168 milljónir króna. Forgangskrafa upp á 230 þúsund krónur var greidd að fullu.

Samþykktar veðkröfur í bú PTG ehf., áður Primera Travel Group, voru rúmir 5,6 milljarðar og samþykktar almennar kröfur voru samtals 6,6 milljarðar. Upp í veðkröfurnar fengust 67 milljónir og í almennu kröfurnar 3 milljónir. Því fengust einungis sjötíu milljónir greiddar upp í kröfur upp á rúmlega tólf milljarða króna.

Kröfur í PI ehf. voru alls rúmir 4,2 milljarðar en ekkert fékkst greitt upp í þær. Því fengust samtals 497 milljónir greiddar upp í kröfur upp á rúma 22 milljarða, eða 2,25 prósent. 

Skiptastjóri búanna þriggja var Eiríkur Elís Þorláksson.


Tengdar fréttir

Lítið sem ekkert í þrotabúi Primera

Tæplega 4,6 milljónir króna og ein bifreið hafa fundist upp í tæplega 17 milljarða króna kröfur í þrotabú flugfélagsins Primera air að sögn skiptastjóra.

Mikið tap hjá Arion vegna Primera Air

Arion banki hefur sent frá sér afkomuviðvörun sem samkvæmt heimildum Vísis má rekja til gjaldþrots Primera Air. Tilkynnt var í gær að flugfélagið myndi fara í greiðslustöðvun í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×