Margir hafa orðið til þess að gagnrýna ákvörðun Seðlabankans um að hækka enn stýrivexti eins og gert var í gær um 75 punkta. Rýtingur í bakið á heimilum landsins, segja hagsmunasamtök heimilanna. Algerlega óskiljanlegt, segir formaður VR. En forsætisráðherra?
„Seðlabankinn stendur frammi fyrir flóknu verkefni. Það er alveg ljóst að ef verðbólgan fer hér úr böndunum stöndum við frammi fyrir mjög alvarlegri stöðu. Þess vegna skiptir svo máli að við tökum höndum saman og þar hafa stjórnvöld og Seðlabanki leitast við að stilla saman strengi,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.

„Lítið svigrúm til launahækkana“ verði að gilda fyrir alla
Kjaraviðræður eru fram undan og forsætisráðherra segir að stjórnvöld muni þar leggja sitt af mörkum til að bæta kjör fólks. Á endanum sé það þó launafólks og atvinnurekenda að semja sín á milli.
„Þar ber launafólk ekki eitt ábyrgð,“ segir Katrín. „Þar skiptir líka miklu máli að atvinnurekendur og forystumenn í atvinnulífi sýni hófsemd í eigin launagreiðslum til að skapa sáttina sem þarf til að við getum í raun bætt lífskjör almennings. Það gerum við auðvitað með því að bæta kaupmátt en ekki bara hækka laun. Það þarf að fylgja,“ segir Katrín.
„Á sama tíma og talað er um lítið svigrúm til launahækkana þá verður það að gilda fyrir allan stigann. Það getur ekki bara gilt fyrir launafólk. Það hlýtur að gilda ekki síður fyrir stjórnendur.“
Þannig að þeir eiga að taka þetta til sín? „Algerlega. Þess vegna segi ég, það er alvarlegt ef verðbólga fer úr böndunum. Við þurfum öll að standa saman, þetta er hluti af því."
Krónan tilkynnti um það í vikunni að vöruverð yrði fryst á fleiri en tvö hundruð vörum. Katrín segir fyrirtæki hafa margar leiðir til að reyna að hemja verðbólguna, en þetta sé ein þeirra.
„Mér finnst það jákvætt ef verslunin tekur þátt í þessu sameiginlega verkefni okkar að hafa hemil á verðbólgunni og ég held að það skipti máli,“ segir Katrín.