Innlent

Um þrjú hundruð flugmenn vantar á næstunni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
154 nemendur eru nú í flugnámi hjá Flugakademíu Íslands hjá Keili á Keflavíkurflugvelli þar sem framtíðar atvinnuflugmenn eru þjálfaðir.
154 nemendur eru nú í flugnámi hjá Flugakademíu Íslands hjá Keili á Keflavíkurflugvelli þar sem framtíðar atvinnuflugmenn eru þjálfaðir. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Um þrjú hundruð flugmenn mun vanta til starfa á Íslandi á næstu tveimur til þremur árum, og því er mikill áhugi á að læra flug hjá Flugakademíu Íslands hjá Keili á Keflavíkurflugvelli þar sem framtíðar atvinnuflugmenn eru þjálfaðir.

Námið er verklegt og bóklegt en bóklegi hlutinn fer fram í Keili og verklegi hlutinn fer annað hvort fram á Reykjavíkurflugvelli eða Keflavíkurflugvelli. 154 nemendur eru nú í náminu á öllum stigum þess.

„Fólk sækist eftir því að vera flugmenn af því að því langar til þess að sinna starfi, sem er ábyrgðarfullt, með öryggi að leiðarljósi allan daginn og líka ævintýrablóma, sem vill oft verða. Það er ekki í öllum starfsstéttum þar sem þú færð borgað fyrir að horfa út um gluggann,“ segir Óskar Pétur Sævarsson, skólastjóri Flugakademíu Íslands.

Óskar Pétur segir mikla eftirspurn eftir atvinnuflugmönnum víða um heiminn og ekki síst á Íslandi.

„Stærstu flugfélög Íslands eru að stefna á það að ráða um þrjú hundruð flugmenn á næstu tveimur til þremur árum. Þetta sést líka lang best á því að það er verið að kaupa flugvélar og stækka flotann. Og það er talað um að fyrir hverja íslenska flugvél, eða fyrir hverja flugvél, sem kemur á íslenska skrásetningu þá þarf um níu til ellefu flugmenn til að hafa hana í rekstri.“

Óskar Pétur Sævarsson, skólastjóri Flugakademíu Íslands.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað er mest heillandi við það að vera flugmaður?

„Að fá að stjórna flottum flugvélum, kynnast og starfa með flottu og mismunandi fólki í krefjandi aðstæðum. Ferðast er auðvitað hluti af þessu og bara upplifa frelsið að vera í loftinu,“ segir Óskar Pétur.

Keilir er með flotta flugherma þar sem nemendur fá að æfa sig undir leiðsögn kennara. Nemendur eru mjög ánægðir í náminu þó það kosti fjórtán og hálfa milljón króna.

„Við mætum í skólann alla daga og svo bara heim að læra fyrir næsta dag, það er lítið annað, sem er gert á þessum tíma. Konum er alltaf að fjölga í fluginum, sem mér finnst geggjað“, segir Tinna Rós Sigurjónsdóttir, nemandi í Flugakademíu Íslands.

Tinna Rós Sigurjónsdóttir, nemandi í Flugakademíu Íslands.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×