Fótbolti

Infantino vill HM á þriggja ára fresti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vill halda HM á þriggja ára fresti.
Vill halda HM á þriggja ára fresti. Tom Weller/Getty Images

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, vill að heimsmeistaramótið í fótbolta sé haldið með þriggja ára millibili frekar en fjögurra eins og hefur verið venjan frá því mótið var sett á laggirnar.

Forsetinn er nýbúinn að tilkynna nýja og mikið breytt fyrirkomulag þegar kemur að HM félagsliða. Hann lætur ekki staðar numið þar og vill nú gera breytingu sem myndi í raun umturna landslagi fótboltans eins og við þekkjum það.

Infantino vill enn fleiri landsleiki og enn meiri pening í vasa FIFA. Árangur HM í Katar á þeim sviðum ýtti undir skoðun hans að HM á þriggja ára fresti sé hugmynd sem vert er að framkvæma.

Það væri svo hægt að halda Evrópumótið og HM félagsliða á árunum tveimur á milli heimsmeistarakeppna. Það þarf vart að taka fram að hér virðist aðeins um að ræða HM í karlaflokki. Hvernig HM, EM og aðrar álfukeppnir kvenna megin eiga að komast að með slíkum fjölda stórmóta í karlaflokki er alls óvíst og virðist ekki hafa verið tekið með í reikninginn.

Draumur hins 52 ára gamla Infantino getur ekki orðið að veruleika fyrr en eftir HM 2030. Ekki hefur verið ákveðið hvar sú keppni fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×