Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala, ræddi málið í Reykjavík síðdegis í dag. Hann segir rétt að kaupsamningar hafi ekki verið færri í áratug.
„Þetta er 30 prósent niður frá því í hittiðfyrra. Þetta er komið innan við fjögur hundruð samninga í janúar ef ég man rétt – og rétt rúmlega 500 í febrúar. Þannig að þetta er svona aðeins á niðurleið enn þá.“
„Auðvitað var þetta allt of mikið“
Hann segir að fyrstu kaupendur vanti á markaðinn; þeir virðist einfaldlega veigra sér við að kaupa íbúðir eins og staðan sé í dag. Aðgerðir seðlabankastjóra þar sem miðað var við 35 prósent af ráðstöfunartekjum við mat á greiðslubyrði hafi haft sitt að segja.
„Auðvitað var þetta allt of mikið. Það er ekki eðlilegt að 50 prósent íbúa seljist á yfirverði. Það er komið í tólf prósent núna sem er talinn eðlilegur markaður ef við tökum tíu til fimmtán ár aftur í tímann. Þannig að ég held að þessar aðgerðir séu klárlega að virka og [seðlabankastjóri] ætlaði sér að gera þetta. En svo er bara spurning hvað [seðlabankastjóri] ætlar að halda þessu lengi. Það geta í rauninni ekki verið færri kaupsamningar, þeir eru orðnir svo fáir.“
Markaðurinn fínn í dag
Hannes segir að gera megi ráð fyrir því að húsnæðisverð lækki um þrjú prósent á þessu ári, þó erfitt sé að spá fyrir með nákvæmni. Margt sé þó gott við markaðinn eins og hann er í dag.
„Það verður miklu meira til sölu, fólk hefur úr meiru að velja, fólk hefur meiri tíma – það selst ekki allt strax. Einhver myndi segja að það væri gott að kaupa íbúð á markaði eins og hann er núna, töluvert betra heldur en þegar það eru kannski þrjú eða fjögur tilboð í hverri eign.“
Hægt er að hlusta á viðtalið við Hannes í heild sinni hér að neðan.