Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi. Þar segir að um hálf ellefu í gærmorgun hafi lögreglu borist tilkynning um að erlendur ferðamaður hafi fallið niður í gilið við fossinn Glym í Hvalfirði.

Lögreglan á Vesturlandi ásamt sjúkraliði og fjölmennu liði frá björgunarsveitunum fóru á vettvang ásamt því að þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.
Aðstæður voru erfiðar á vettvangi og fóru björgunarsveitarmenn upp gilið, sem er um 190 metra djúpt þar sem það er dýpst, og komu að þar sem kona á þrítugsaldri fannst látin.
Fram kemur í tilkynningu lögreglu að konan hafi verið á göngu ásamt maka sínum upp með gilinu ofanverðu. Þar féll hún fram af brún gilsins. Segir lögregla að fallið hafi verið mjög hátt og ljóst að konan hafi látist samstundis. Þakkar lögregla öllum þeim sem komu að björgunaraðgerðum í gær.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi vinnur að rannsókn málsins.