Viðskiptaveldi Soros, sem er 92 ára gamall, er metið á um 25 milljarða dollara. Alexander Soros er 37 ára gamall, eldri tveggja sona sem Soros átti með Susan Weber, annarri eiginkonu sinni. Soros á annan eldri son af fyrra hjónabandi sem var talinn líklegasti arftaki hans þar til að þeim sinnaðist.
Hatur hægrimanna á Soros tengist framlögum hans til mannréttinda- og lýðræðismála víða um heim í gegnum félagasamtökin Open Society Foundation. Orðræða þeirra um Soros einkennist einnig oft af gyðingahatri og framandlegum samsæriskenningum.
Alexander Soros segir við Wall Street Journal að hann ætli færa út kvíarnar í stuðningi við frjálslynd málefni og styrkja baráttu fyrir kosningarétti, þungunarrofi og kynjajafnrétti. Í því skyni ætli hann að nota fjölskylduauðinn til þess að styrkja frjálslynda frambjóðendur í Bandaríkjunum.
Sonurinn lýsir sjálfum sér sem „pólitískari“ en faðir sinn. Þeir hugsi hins vegar eins. Hann hefur verið formaður Open Society Foundation frá því í desember. Síðan þá segist hann meðal annars hafa hitt leiðtoga Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, Lula Brasilíuforseta og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Lýsti Alexander Soros áhyggjum af því að Donald Trump kynni að ná endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna á næsta ári.
„Eins og ég væri til í að fjarlægja peninga úr pólitíkinni verðum við að gera það líka svo lengi sem hinir gera það,“ sagði Soros sem virtist boða að fjölskyldan ætlaði sér að láta til sín taka í framlögum til frambjóðenda þar.