Heimildin greindi fyrst frá en Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Hann segir að Samherji hafi skuldbindingum að gegna sem matvælafyrirtæki. Miklu máli skipti að afhenda vörur á réttum tíma og því geti fyrirtækið því miður ekki komið til móts við starfsfólk.
Áður hefur komið fram að skipuleggjendur verkfallsins hafi í hyggju að birta tossalista yfir atvinnurekendur sem hamli þátttöku kvenna og kvára í kvennaverkfallinu. Þá hafa fyrirtæki líkt og Samkaup og Coca Cola á Íslandi sent frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla þar sem fyrirtækin lýsa því yfir að þau muni ekki skerða laun starfsfólks síns í verkfalli.
Verði að standa við skuldbindingar
Karl Eskil segir að stórir áhrifaþættir hafi orðið til þess að forsvarsmenn Samherja hafi orðið að taka þessa ákvörðun. Fyrirtækið hefur meðal annars sent starfsfólki dreifibréf vegna verkfallsins.
Heimildin birtir dreifibréfið en þar eru konur fyrirtækisins sem vilja leggja niður störf hvattar til að láta yfirmann sinn vita. Ekki verði greidd laun vegna fjarveru þennan dag. Karl segir tvær breytur ráða mestu um ákvörðun fyrirtækisins.
„Þetta er harður markaður, því miður. Við höfum gert samninga langt fram í tímann um að afhenda vörur á tilteknum tíma og við verðum að standa við þær skuldbindingar. Það er ein breytan, síðan er það vinnslan. Ef hún stöðvast í einn dag þá hefur það áhrif til dæmis á togaraflotann og stýringuna á honum.“
Geti mætt á útifund á launum
Í dreifibréfi Samherja til starfsmanna kemur auk þess fram að hafi konur áhuga á að fara á skipulagða dagskrá þennan dag, séu þær beðnar um að gera það í samráði við sinn yfirmann. Sá tími verði ekki dreginn af launum.
„Það er útifundur á Akureyri á milli 11 til 11:45 ef ég man þetta rétt. Þeir starfsmenn sem vilja mæta þangað geta gert það og það verður ekki dregið af launum,“ segir Karl. Hann segist ekki hafa það á hreinu hve hátt hlutfall kvenna og kvára vinni hjá Samherja.
„En það er hátt hlutfall í landvinnslunni. Ef vinnsla stöðvast í einn dag myndi það hafa mikil áhrif á togaraflotann og flutninga, bara svo ég nefni dæmi. Við erum með okkar samninga við flutningafyrirtæki til dæmis, og löngu búið að panta pláss um borð í flutngaskipum eða í fraktvélum.“