Fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin í febrúar árið 2020 og því í tæp fjögur ár í byggingu. Hún var teiknuð af Studio Granda en um er að ræða stærstu framkvæmd Alþingis síðan Alþingishúsið sjálft var reist á árunum 1880 til 1881.
Allt til alls
Fyrstu starfsmennirnir munu flytja starfsstöðvar sínar í nýbygginguna á næstu dögum að sögn Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis. Í byggingunni verður, auk skrifstofa þingmanna og starfsfólks, fundaraðstaða fyrir fastanefndir, ráðstefnusalur, fundarherbergi og fleira.

„Á þinginu starfa auk 63 þingmanna 115 á skrifstofunni og þrjátíu pólitískir aðstoðarmenn. Þannig við verðum áfram með skrifstofur hér við Kirkjustrætið. Við erum með gömul hús hér sem eru í eigu þingsins og við höldum áfram að nota. En hér er pláss fyrir öll,“ segir Ragna.
Spara níutíu milljónir á ári
Flestir þeirra starfsmanna og þingmanna sem koma til með að flytja þangað hafa verið með skrifstofur í húsnæði við Austurstræti sem þingið hefur haft á leigu. Leigukostnaðurinn á þeim rýmum hefur numið tvö hundruð milljónum króna á ári og áætlar Alþingi að með nýbyggingunni sparist níutíu miljónir króna á hverju ári.

Ragna segir starfsmenn vera orðna afar spennta.
„Ég held það hlakki öll mjög til. Það er spennandi að fara í nýtt hús, þetta er lúxus, það eru forréttindi að fá að starfa í svona fínu húsi,“ segir Ragnar.

Húsgögn til sölu
Á einni af þeim skrifstofum sem Alþingi hefur verið með á leigu hafa starfsmenn byrjað að undirbúa flutninga. Þar má sjá kassa en einnig mublur sem munu ekki flytja með yfir Austurvöll.
Mörg þeirra húsgagna hafa verið sett á sölu á vef Efnisveitunnar, svo sem borð, stólar og skjávarpar. Ekki er not fyrir þessi húsgögn í nýju byggingunni og verða ný húsgögn keypt í þeirra stað.