Davíð Helgason stofnaði Unity Technologies ásamt Þjóðverjanum Joachim Ante og Dananum Nicholas Francis árið 2004. Í dag þróar fyrirtækið vinsælt leikjaumhverfi sem notað er til að þróa tölvuleiki og annan hugbúnað. Fyrirtækið hefur vaxið gríðarlega frá stofnun og er í dag eitt það stærsta á sínu sviði.
Viðskiptablaðið vísar í umfjöllun Wall Street Journal þar sem fram kemur að uppsagnirnar séu vegna vandræða fyrirtækisins frá því í haust. Þá voru kynntar verðbreytingar til viðskipta en Unity ætlaði að sér að rukka bæði notendur og tölvuleikjaframleiðendur við uppsetningu leikja í símum.
Tölvuleikjaframleiðendur greiða Unity nú þegar leyfisgjald til að nota hugbúnað fyrirtækisins.
Verð á bréfum í Unity hækkuðu um þrjú prósent við tilkynningu um hópuppsögn og hefur hækkað um tuttugu prósent undanfarinn mánuð.
Davíð Helgason var um tíma á lista Forbes yfir ríkasta fólk í heimi vegna virðis hlutar hans í Unity. Hann féll af listanum sem birtur var í apríl síðastliðnum vegna þess að verð á bréfum í Unity hafði hrapað um 68 prósent árið á undan.
Davíð hefur beint spjótum sínum að fjárfestingum í loftslagsmálum undanfarin misseri, meðal annars með því að koma á fót vísisjóði á sviði loftslagsmála.