Fyrst reyndu Repúblikanar í fulltrúadeildinni að ákæra Alejandro N. Mayorkas, yfirmann heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna, fyrir meint embættisbrot. Ekki voru næg atkvæði fyrir því, þar sem nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins, auk allra Demókrata, greiddu atkvæði gegn ákæru.
Al Green, þingmaður Demókrataflokksins frá Texas, kom inn í þingsal í hjólastól til að greiða atkvæði en hann frestaði skurðaðgerð til að geta greitt atkvæði gegn ákæru. Þannig var útlit fyrir að atkvæðagreiðslan færi 215-215, eftir að þrír Repúblikanar greiddu atkvæði gegn ákæru.
Þess vegna breytti einn þingmaður Repúblikanaflokksins atkvæði sínu, svo hægt væri að leggja fram frumvarpið aftur, eins og leiðtogar flokksins segjast ætla að gera. Ekki hefði verið hægt að gera það hefði atkvæðagreiðslan endað í jafntefli.
Atkvæðagreiðslan fór því 214-216.
Þeir þrír þingmenn Repúblikanaflokksins sem greiddu atkvæði gegn ákæru segja að það að ákæra embættismann fyrir embættisbrot vegna deilan um stefnumál myndi skapa slæmt fordæmi. Þá þykir ljóst að Mayorkas yrði aldrei sakfelldur af þingmönnum öldungadeildarinnar, þar sem Demókratar eru með nauman meirihluta.
Í frétt Washington Post segir að þegar einn þingmannanna kom flokksmeðlimum sínum á óvart með því að greiða atkvæði gegn ákæru, hafi aðrir þingmenn hópast í kringum hann og reynt að fá hann til að breyta atkvæði sínu.
Mistókst tvisvar sinnum
Repúblikanar vilja ákæra Mayorkas fyrir embættisbrot vegna ástandsins á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Á sama tíma hafa Repúblikanar afneitað frumvarpi sem samið var eftir langar viðræður öldungadeildarþingmanna beggja flokka en umrætt frumvarp myndi fela í sér einhverjar umfangsmestu mögulegu aðgerðir á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó í áratugi og myndu Repúblikanar ná fram mörgum af baráttumálum sínum með því.
Frumvarpið snerist einnig um hernaðaraðstoð handa Úkraínumönnum, Ísraelum og Taívan en Repúblikanar höfðu notað það sem vogarafl í viðræðum við Demókrata til að ná fram baráttumálum sínum á landamærunum og draga úr fjölda farand- og flóttafólks.
Ástæðan fyrir því að Repúblikanar snerust gegn frumvarpinu er að Donald Trump, fyrrverandi forseti og núverandi forsetaframbjóðandi, vill nota „krísuna“ á landamærunum í kosningabaráttu sinni gegn Joe Biden, fyrir forsetakosningarnar í nóvember.
Strax eftir atkvæðagreiðsluna um meint embættisbrot Mayorkas reyndu Repúblikanar í fulltrúadeildinni að samþykkja eigið frumvarp um 17,6 milljarða dala hernaðaraðstoð handa Ísrael. Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, hafði heitið því að leggja slíkt frumvarp fram.
Demókratar lögðust alfarið gegn því frumvarpi en Joe Biden, forseti, hafði áður heitið því að beita neitunarvaldi gegn því ef það yrði nokkurn tímann samþykkt á þingi. Demókratar saka Repúblikana um bellibrögð og vilja sameina hernaðaraðstoð til Úkraínu, Ísrael og Taívan í einu frumvarpi.
Atkvæðagreiðslan um hernaðaraðstoð til Ísrael fór ekki Repúblikanaflokknum í vil, þar sem nokkrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn því, með Demókrötum, á þeim grundvelli að ekkert væri skorið niður til móts við hina 17,6 milljarða sem átti að setja í hernaðaraðstoðina.
Jake Sherman, blaðamaður Punchbowl News, sem lengi hefur fjallað um bandaríska þingið, segir gærdaginn hafa verið mjög vandræðalegan fyrir leiðtoga Repúblikanaflokksins.
I've seen a lot of embarrassing days for different House Republican leadership teams. This one is pretty high on the list.
— Jake Sherman (@JakeSherman) February 7, 2024
They lost a vote to impeach Mayorkas. And then they lost a vote to send $17.6 billion to Israel.
They didn't need to vote on the israel bill today. They
Johnson sendi frá sér yfirlýsingu eftir atkvæðagreiðsluna þar sem hann sakaði Demókrata og Joe Biden um að snúa bakinu við nánustu bandamönnum Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, þegar þeir þurfa hvað mest á aðstoð að halda.
Sjá einnig: Hefur lengi barist gegn réttindum „ónáttúrulegs“ hinsegin fólks
Þá hélt hann því fram að Demókratar ætluðu sér að nota aðstoð til Ísrael til að ná fram óvinsælum forgangsmálum sínum. Það væri rangt af Demókrötum að reyna að nýta neyð Ísraela með þessum hætti og þeir ættu að skammast sín.
My statement on Israel Aid Package: pic.twitter.com/YPBxeGlbsO
— Speaker Mike Johnson (@SpeakerJohnson) February 7, 2024
Chuck Schumer, leiðtogi Demókrataflokksins í öldungadeildinni, hefur sagt að hann ætli að leggja frumvarp um sameiginlega hernaðaraðstoð til Úkraínu, Ísrael og Taívan á næstunni. Talið er að það muni ekki fá þau sextíu atkvæði sem þarf í öldungadeildinni, samkvæmt frétt New York Times.