Eygló Fanndal sló tvö Norðurlandamet og bætti persónulega metið sitt um fimm kíló á lokaúrtökumótinu fyrir Ólympíuleikanna. Hún þurfti engu að síður að sætta sig við það að rétt missa af farseðli á Ólympíuleikana í París. Smá von lifir enn hjá íslensku lyftingakonunni því það er ekki búið að læsa bakdyrunum á leikana.
Eygló fer yfir stöðuna í pistli á samfélagsmiðlum en nú þarf hún að bíða og vona.
„Ég hélt ég myndi hafa mikið að segja um þessa keppni en ég hef það í raun ekki. Það var ekkert sem klikkaði. Ég var vel undirbúin og andlega var ég á góðum dag á meðan keppninni stóð. Ég gaf allt mitt en þetta gekk bara ekki upp fyrir mig,“ skrifaði Eygló.
„Þar sem ég kem til greina fyrir eitt af útbreiðslusætunum á leikana þá er ég í skrítinni stöðu þar sem ég þarf að bíða og sjá til hvernig þetta endar.
„Ég ætla leyfa mér að vera áfram vongóð og jákvæð en um leið að stilla öllum væntingum mínum í hóf svo að vonbrigðin verði ekki of mikil verði ekki af þessu. Þetta úrtökuferli hefur verið mjög krefjandi en ég er um leið mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa reynslu og þakklát fyrir allan stuðninginn sem ég hef fengið á þessum tíma,“ skrifaði lyftingakonan.
„Þegar markmiðið þitt er eins stórt og að komast á Ólympíuleikana þá verður allt annað lítið í samanburði. Að ganga í burtu með fimm kílóa bætingu á heildarkílóafjöldanum, tvö Norðurlandamet og ný Íslandsmet ættu að vera vitnisburður um frábæran dag en að ein sem ég hugsaði um var að ég var svo nálægt því að komast inn á Ólympíuleikana.
„Með því að skoða hversu langt ég er komin og allar framfarir mínar á stuttum tíma í þessu sporti þá get ég ekki annað en verið stolt af sjálfri mér og spennt fyrir framtíðinni. Ég ætla að halda áfram að æfa og sjá hversu langt ég kemst. Nú tekur við bið og óvissa um hvernig þetta endar. Ef þetta þá að gerast þá gerist það,“ skrifaði Eygló að lokum.