Changpeng Zhao, stofnandi Binance, sagði af sér sem forstjóri kauphallarinnar í nóvember í kjölfar þess að hann og fyrirtækið játuðu sekt sína. Binance féllst á að greiða 4,32 milljarða dollara, jafnvirði tæpra 609 milljarða íslenskra króna, í sekt.
Búist er við að refsing Zhao verði ákveðin 30. apríl. Reuters-fréttastofan segir að saksóknararnir í málinu fari fram á 36 mánaða fangelsisdóm í ljósi umfangs brotanna. Það er í samræmi við samkomulag sem Zhao gerði við yfirvöld um að hann áfrýjaði ekki fangelsisdómi að þeirri lengd. Hann gengur laus gegn 175 milljóna dollara tryggingar.
Bandarísk yfirvöld sökuðu Binance meðal annars um að tilkynna ekki fleiri en 100.000 grunsamlegar færslur frá skilgreindum hryðjuverkasamtökum eins og Hamas, al-Qaeda og Ríki íslams. Þá væri Binance vettvangur viðskipta með barnaníðsefni og tæki við ágóða tölvuþrjóta sem hneppa gögn fólks og fyrirtækja í gíslingu.
Zhao er kanadískur ríkisborgari, fæddur í Kína. Hann þarf að greiða fimmtíu milljónir króna til þess að gera upp málið, jafnvirði rúmra sjö milljarða íslenskra króna.