Bankman-Fried hlaut 25 ára fangelsisdóm fyrir að svindla á fjárfestum og innistæðueigendum FTX fyrr á þessu ári. Sakfelling hans byggðist meðal annars á vitnisburði Ellison en þau Bankman-Fried höfðu meðal annars átt í ástarsambandi á tímabili.
Ellison var forstjóri rafmyntavogunarsjóðsins Alameda Research. Bankman-Fried færði milljarða dollara ólöglega út úr FTX á laun til þess að bjarga því félagi þegar það skuldaði milljarða dollara vegna misheppnaðra fjárfestinga. Þegar fregnir af óráðsíu hjá FTX byrjuðu að berast út gerðu viðskiptavinir áhlaup á fyrirtækið. Það var á endanum tekið til gjaldþrotameðferðar í nóvember 2022.
„Ég skammast mín ákaflega fyrir það sem ég hef gert,“ sagði Ellison tárvot þegar hún bað alla þá sem urðu fyrir tjóni af völdum svikanna fyrir dómi.
Dómarinn í máli Ellison féllst á tillögu saksóknara um að Ellison ætti skilið vægari refsingu vegna þess hversu einstaklega samvinnufús hún hefði verið við rannsókn málsins. Hún hefði játað sekt sína og borið vitni gegn Bankman-Fried.
Saksóknari sagði að sér hefði þótt sérstaklega mikið til þess koma að Ellison hefði ekki reynt að komast undan réttvísinni heldur varið tveimur árum í að liðsinna rannsakendum málsins.
Þrátt fyrir það taldi dómarinn nauðsynlegt að dæma Ellison til fangelsisvistar í ljósi þátttöku hennar í einu umfangsmesta fjársvikamáli í sögu Bandaríkjanna. Hún þarf að gefa sig fram til afpláningar 7. nóvember.