Þetta segir í tilkynningu á vef Samherja. Afsökunarbeiðnin og vefsíða sem Odee smíðaði og lét líta út fyrir að vera á vegum Samherja var hluti af útskriftarverkefni hans við Háskólans í Björgvin í Noregi. Odee hefur ítrekað reynt að blekkja fjölmiðla með fölskum fréttatilkynningum sem hann hefur sent út, nú síðast í nafni bandarísku kaffihúsakeðjunnar Starbucks.
Samherji óskaði eftir því að Odee tæki vefsíðuna niður, afhenti fyrirtækinu lén hennar og gerði grein fyrir því að síðan hefði verið fölsuð. Því neitaði hann. Í kjölfarið stefndi Samherji Odee fyrir breskum dómstól en vefsíðan var hýst í Bretlandi.
Í frétt norska ríkiútvarpsins síðan í september er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, að Samherji krefðist þess einungis að Odee tæki vefsíðuna úr loftinu og eyddi öllu tengdu útskriftarverkefninu. „Samherji hefur engan áhuga á að stefna [Odee] umfram það að stöðva vísvitandi ólögleg brot hans.“
Í tilkynningu Samherja nú segir ekki hverjar kröfur félagsins á hendur Odee, sem fallist var á, hafi verið.
Ekki listræn skopstæling
Í tilkynningu segir að í forsendum dómsins sé því slegið föstu að notkun vörumerkis Samherja við hönnun vefsíðunnar hafi verið gerð í því skyni að ljá vefsíðunni trúverðugleika en ekki í þeim tilgangi að varpa fram gagnrýni. Notkun vörumerkis og öll framsetning vefsíðunnar hafi verið eins og um væri að ræða opinbera vefsíðu félagsins.
Þannig hafi hönnun síðunnar hvorki falið í sér listræna skopstælingu né skrumskælingu sem rúmast innan þess tjáningarfrelsis sem listamenn njóta.
Odee hafi hafnað mildari úrræðum
Niðurstaða dómsins hafi verið að uppsetning vefsíðunnar á léni með nafni félagsins, og vísvitandi framsetning rangra upplýsinga þar inni, hafi falið í sér ásetning um blekkingar. Þá hafi ekki verið fallist á að framangreint feli í sér ólögmætar skerðingar á tjáningarfrelsi enda geti tjáningarfrelsi sætt takmörkunum vegna lögbundinna réttinda annarra og þar undir falla vörumerkja- og hugverkaréttindi.
„Við erum að sjálfsögðu ánægð með þessa niðurstöðu. Við vorum knúin til þess að verja vörumerki okkar með málshöfðun þegar öllum mildari úrræðum var hafnað. Dómurinn er afdráttarlaus um hvað geti flokkast sem listræn tjáning og hvað teljist misnotkun á skráðu vörumerki. Sú niðurstaða hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir þær menntastofnanir sem lögðu blessun sína yfir augljós vörumerkjabrot undir formerkjum listsköpunar,“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja hf.
Fallist á kröfur Samherja án eiginlegra réttarhalda
Í frétt Reuters um málið segir að dómari í því hafi ákveðið að fallast á allar kröfur Samherja án þess að eiginleg réttarhöld færu fram í málinu. Hann hafi talið að málsástæður Odees væri harla ólíklegar til þess að leiða til sýknu af kröfum félagsins.
Því hafi hann fallist á kröfur Samherja um að setja lögbann á vefsíðuna. Þá hafi hann sagst að hann myndi gera Odee að greiða Samherja „lága fjárhæð“ sem ætti að dekka tjón félagsins vegna málsins.
Leiðrétt: Í upphaflegri útgáfu var eldra nafn Odees notað en hann breytti nafni sínu formlega í október síðastliðnum.