Á föstudaginn var verkfalli kennara frestað eftir að samkomulag náðist á milli þeirra og samninganefnda ríkis og sveitarfélaga um tillögu frá Ríkissáttasemjara.
Tæpar fimm vikur eru síðan verkfallsaðgerðir kennara hófust og voru börnin á Drafnarsteini flest ánægð með að mæta aftur í leikskólann í dag.
Gleði, kökkur í hálsi og faðmlög
„Það var mikil gleði. Það var bara kökkur í hálsi og faðmlög og yndislegt. Miklar tilfinningar. Þetta er búið að vera mikill rússíbani að standa í þessu og fyrir alla. Þannig að miklar tilfinningar og glöð börn,“ segir Halldóra Guðmundsdóttir leikskólastjóri á Drafnarsteini.
„Við fullorðna fólkið vorum mikið í faðmlögum og svo auðvitað knús frá krökkunum. Þau eru ómetanleg og við höfum saknað þeirra mikið. Nú er náttúrulega aðventan gengin í garð þannig að þetta var mikil aðventugjöf.“

Þess ber að geta að Halldóra hefur sjálf ekki verið í verkfalli og því verið starfandi síðustu fimm vikurnar. Það hafi verið sérstakt að vera í barnalausum leikskólanum allan þennan tíma.
„Ég get ekki hugsað til þess“
Halldóra segir börnin hafa haft frá mörgu að segja eftir fjarveruna.
„Það gerist ýmsilegt á fimm vikum. Það er búið að halda mörg afmæli og börn hafa orðið stóru systkini og það er búið að fara í flugvél. Þannig við erum svolítið búin að vera að taka púlsinn á hvað allir hafa verið að gera.“
Einungis er um frestun verkfallsaðgerða að ræða og hefst verkfall á ný ef ekki verður búið að semja fyrir 1. febrúar. Halldóra segir það erfiða tilhugsun að þurfa mögulega að loka leikskólanum aftur.
„Ég get ekki hugsað til þess. Það er bara einn dagur í einu. Það verður bara að koma í ljós og ég vona svo sannarlega að samningar náist áður en það verður,“ segir hún.