Skoðun

Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn

Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar

Einhver sagði si svona:

“Það þarf bara að loka einu álveri til að eiga næga orku og klára orkuskiptin”.

En það er aðeins flóknara en það…

Álverin á Íslandi greiða fyrir raforkuna sem þau kaupa og gera um þau viðskipti langtíma samninga. Þessir samningar eru um leið traustur rekstrargrunnur orkufyrirtækjanna.

Fyrir þá raforku sem álverin kaupa, verða til verðmæti. Útflutningsverðmæti álframleiðslu á síðasta ári voru 325 milljarðar og innlend útgjöld álveranna voru 160 milljarðar. Þar af greiddu álverin rúma 25 milljarða í laun og launatengd gjöld og þau greiddu 9,5 milljarða í opinber gjöld.

Álverin þrjú á Íslandi eru öll í spriklandi fínu standi enda hafa þau lagt sig fram um að fjárfesta í innviðum sínum, bæði til viðhalds og ekki síður til að auka virði þeirrar vöru sem þau framleiða. Á þeim sjást engin ellimerki og engin ástæða til að loka þeim.

Ef við lokum álveri til að rýma fyrir orkuskiptunum verða ekki til þau verðmæti sem álverin skapa þjóðinni. Þúsundir Íslendinga munu bera af slíku tjón í formi tekjumissis, en hjá álverunum starfa um 2000 manns í fjölbreyttum störfum og hátt í 5000 manns sé tekið tillit til afleiddra starfa.

Frumkvöðlastarf og nýsköpun hefur dafnað nálægt áliðnaði á Íslandi og nýtur vísindasamfélagið góðs af með mörgum áhugaverðum verkefnum sem skipta einmitt máli í baráttunni við loftslagsvána.

Það allra mikilvægasta er þó án efa að til viðbótar við þann hagræna ávinning sem þjóðin hefur af álframleiðslu á Íslandi er hún mikilvægt framlag þjóðarinnar til loftslagsmála. Á Íslandi framleiðum við nefnilega ál með lægst kolefnisspor í heimi.

Orkuskiptin verður einfaldlega að klára með því að afla meiri orku.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.




Skoðun

Sjá meira


×