Innlent

Á­kvörðun tekin án sam­ráðs við nokkurn mann nema Bænda­samtökin

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Vísir/Vilhelm

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir það vonbrigði að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta áformum um breytingar á tollflokkun pítsaosts íblönduðum jurtaolíu. Hann segir fyrri ríkisstjórn hafa keyrt málið í gegn án samráðs við nokkurn mann nema Mjólkursamsöluna og Bændasamtökin.

Árið 2020 breytti Skatturinn tollflokkun á pítsaosti íblönduðum jurtaolíu þannig að hann bæri þrjátíu prósenta toll. Félag atvinnurekenda sagði í tilkynningu að ákvörðunin var tekin undir þrýstingi frá fjármálaráðuneytinu, Bændasamtökum Íslands og Mjólkursamsölunni.

Í síðustu viku var Ísland svo sett á lista Evrópusambandsins yfir viðskipta­hindr­an­ir, sem út­flutn­ings­fyr­ir­tæki í ESB-ríkj­um eru beitt í ríkj­um utan sam­bands­ins. Í kjölfarið birti fjármálaráðherra í samráðsgátt áform um lagasetningu sem breytir tollflokkuninni aftur til fyrra horfs.

Hagsmunasamtök landbúnaðar- og matvælaframleiðanda á Íslandi mótmæltu áformunum harðlega og sögðu að ef af þeim yrði myndi það hafa neikvæð áhrif á innlenda matvælaframleiðslu og samkeppnisstöðu íslenskra bænda.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, greindi svo frá því að tekin hefði verið ákvörðun um að afturkalla áformin og hefja frekari skoðun málsins, og eiga samráð við hagaðila með það að markmiði að geta sameinað alþjóðlegar skuldbindingar, hagsmuni bænda og hagsmuni neytenda.

Alþjóðlegar skuldbindingar verði virtar

„Það eru nú ákveðin vonbrigði að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta þessu máli. Atvinnuvegaráðherrann boðar hins vegar „frekari skoðun og samráð við hagaðila“, sem er út af fyrir sig nýjung vegna þess að fyrri ríkisstjórn keyrði breytingar á tollflokkun vörunnar, sem um ræðir, í gegn með afskaplega lítilli og lélegri skoðun og án samráðs við nokkurn mann nema Mjólkursamsöluna og Bændasamtökin,“ segir Ólafur Stephensen í færslu á Facebook.

Verði skoðun stjórnvalda raunverulega hlutlæg og fagleg hafi hann engar áhyggjur af niðurstöðunni. Hún hljóti að vera sú að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands verði virtar, og milliríkjaviðskipti ekki sett í uppnám með því að fikta í tollskránni.

Ólafur segir einnig í aðsendri grein á Vísi að það væri rangfærsla, að verið væri að svipta innlenda mjólkurframleiðslu einhverri vernd, sem hún hefði haft lengi.

Það væri einungis verið að hverfa aftur til þess ástands sem ríkti hér á landi um langt árabil eftir að Evrópusambandið og Ísland sömdu sín á milli um tollfríðindi fyrir ýmsar unnar búvörur, þar á meðal blöndur af mjólkur- og jurtafeiti, og fram til miðs árs 2020.

„Hann jókst hins vegar talsvert á árunum 2019-2020, fyrst og fremst vegna þess að á markaðinn komu ostablöndur sem eru samkeppnishæfar í gæðum við hreina mjólkurosta og á hagstæðu verði.“


Tengdar fréttir

„Það er verið að vernda stórkaupmenn“

Framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands líst ekkert á áform fjármálaráðherra um að fella niður toll á pitsaost blandaðan jurtaolíu. Með því sé verið að vernda heildsala og stórkaupmenn á kostnað mjólkurbænda.

„Tugir kúabúa gætu þurft að hætta“

Þingflokksformaður Framsóknar segir áform fjármálaráðherra um að breyta tollflokkun pitsaosts íblönduðum jurtaolíu geta haft víðtæk og alvarleg áhrif á íslenska bændur og matvælaframleiðslu. „Tugir kúabúa gætu þurft að hætta.“

Ísland komið í skammarkrókinn vegna osts

Evrópusambandið hefur í fyrsta sinn sett Ísland á lista yfir viðskiptahindranir, sem útflutningsfyrirtæki í Evrópusambandsríkjum eru beitt í ríkjum utan sambandsins. Ástæðan er ákvörðun Skattsins árið 2020 að breyta tollflokkun á pitsuosti með íblandaðri jurtaolíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×