Sport

Meistararnir gefa Trump „risa­stórt nei“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jalen Hurts og liðsfélagar hans í Philadelphia Eagles virðast engan áhuga hafa á að heimsækja Trump í Hvíta húsið.
Jalen Hurts og liðsfélagar hans í Philadelphia Eagles virðast engan áhuga hafa á að heimsækja Trump í Hvíta húsið. Samsett/Getty

Leikmenn Philadelphiu Eagles hafa hafnað boði Donalds Trump í Hvíta húsið eftir að liðið vann Ofurskálina fyrr í mánuðinum. Félagið hafnar því boði forsetans öðru sinni, en ekkert varð af álíka boði í fyrri forsetatíð Trumps.

Rík hefð er fyrir því að lið sem fagnar sigri í NFL-deildinni fái boð í Hvíta húsið. Leikmenn Kansas City Chiefs heimsóttu Joe Biden, þáverandi forseta, eftir sigur liðsins í fyrra.

Bandarískir miðlar greina frá því að leikmenn Philadelphia Eagles hafi ekki áhuga á að þiggja boð Trumps í ár vegna stefnu Bandaríkjaforseta, sem lang flestir Eagles-menn séu ósammála. Svarið hafi verið „risastórt nei“ frá leikmönnum í samtali um heimsóknina við starfsfólk félagsins.

Leikmenn Eagles höfnuðu einnig heimboði Trumps eftir Super Bowl titilinn 2018. Stór hópur leikmanna Eagles ákvað að mæta ekki, þar á meðal flestir ef ekki allir hörunddökkir leikmenn,“ sagði NFL-sérfræðingurinn Adam Schefter frá árið 2018.

Trump hafði á þeim tíma gagnrýnt fjölmarga svarta leikmenn í NFL-deildinni sem krupu á hné á meðan þjóðsöngur Bandaríkjanna var leikinn. Hann kallaði eftir því að leikmenn sem gerðu slíkt yrðu reknir á staðnum.

Eagles unnu 40-22 sigur á Kansas City Chiefs í úrslitaleik NFL-deildinnar 9. febrúar síðastliðinn. Um er að ræða fimmta meistaratitil liðsins, og annan titilinn eftir að Ofurskálin varð til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×