Skoðun

Við höfum ekki efni á tvískinnungi SFS

Vala Árnadóttir skrifar

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vara við norskri leið í sjávarútvegi – en styðja hana fullum fetum í fiskeldi. Það sem SFS kallar „óhagkvæmt“ þegar þau þurfa að greiða meira, verður allt í einu „fyrirmynd“ þegar þau græða meira.

Í nýlegri grein á Vísi (2. maí) skrifar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, að Ísland hafi „ekki efni á því að fara norsku leiðina“ í sjávarútvegi. Þar vísar hún til norskra vinnsluhátta þar sem verðmætasköpun færist úr landi, störf tapist og fiskur er unninn erlendis.

En þegar kemur að fiskeldi, þá vilja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi einmitt að Ísland feti norsku leiðina– og helst mildari útgáfu af henni.

Í umsögn SFS um frumvarp til laga um fiskeldi frá maí 2024 kemur fram að íslenskt gjaldakerfi fyrir fiskeldi sé „sýnilega meira íþyngjandi […] en í Noregi.“ Þau leggja áherslu á að Ísland megi ekki ganga lengra en Noregur í sköttum og reglum. Jafnframt segja þau:

„Viðmiðun við norska skattlagningu er grundvöllur matsins.“

SFS vill nota “norsku” leiðina þegar hún hentar málstaðnum en annars á að forðast hana þegar hún hentar ekki.

Fiskurinn unninn heima – nema þegar það er lax

Í greininni leggur Heiðrún Lind sérstaka áherslu á að íslenskur fiskur sé unninn heima – og varar við því að verðmætasköpun færist úr landi. Þetta sé stærsta efnahagslega hættan við „norsku leiðina“.

En á heimasíðu SFS kemur annað fram þegar kemur að fiskeldi. Þar segir:

„Áframvinnsla er ekki háð landfræðilegum takmörkunum, sérstaklega ef fiskurinn er frystur. Verðmæti aukast jafnan við áframvinnslu.“

(Skýrsla BCG á vegum SFS)

Með öðrum orðum: þau segja okkur að það sé þjóðhagslegt tap ef þorskur er unninn erlendis – en þegar kemur að eldislaxi, þá er engin áhersla á innlenda vinnslu. Þvert á móti. Þá má flytja verðmætin út, ef það þjónar rekstrarlegu hagræði.

Tvískinnungur í stað stefnu

SFS er ekki að verja grundvallarstefnu um sjálfbærni, efnahagslegt réttlæti eða innlenda verðmætasköpun. Þau verja aðeins eigin hagsmuni, í hverju máli fyrir sig. Í sjávarútvegi eru skattar vandamál – en í fiskeldi er léttleiki regluverks forgangsmál.

Sama fyrirmynd, tvö viðhorf. Það er ekki stefnufesta. Það er tvískinnungur.

Þessi mótsögn er ekki bara fræðileg. Þegar áframvinnsla á eldislaxi fer fram erlendis, tapar Ísland ekki aðeins skatttekjum – heldur einnig tækifærum til atvinnusköpunar í byggðum sem þegar búa við þrönga kosti. Á sama tíma sitja íslensk samfélög uppi með mengaða firði og ónýtt lífríki. SFS krefst þess að gróðinn megi fara út – en vill að áhættan sitji eftir heima.

SFS talar um að verja störf og verðmætasköpun, en í raun berjast samtökin fyrir mengandi laxeldi í opnum sjókvíum – að norskri fyrirmynd – þar sem verðmætin mega fara úr landi, svo lengi sem arðurinn skili sér til fyrirtækjanna.

Þetta kallast á góðri íslensku: Tvískinnungur og yfirvarp.

Það er ekkert þjóðhagslegt vit í því að fórna íslenskum fjörðum fyrir úrelt, erlend laxeldismódel sem jafnvel Norðmenn sjálfir eru að endurskoða.

Ef við höfum ekki efni á norsku leiðinni – þá eigum við alls ekki að leyfa opið sjokviaeldi í íslenskum fjörðum.

Og við eigum að hætta að hlusta á bullið frá þeim sem þéna mest á því að blekkja.

Höfundur er lögfræðingur og stjórnarmaður IWF. 




Skoðun

Sjá meira


×