Upp­gjörið: Stjarnan - Grinda­vík 74-70| Stjarnan í úr­slit eftir hádramatík

Siggeir Ævarsson skrifar
Hilmar Smári á fleygiferð í leiknum í kvöld, hann átti eftir að reynast Stjörnunni drjúgur
Hilmar Smári á fleygiferð í leiknum í kvöld, hann átti eftir að reynast Stjörnunni drjúgur Vísir/Anton Brink

Það var rafmögnuð stemming í Umhyggjuhöllinni í kvöld þegar Stjarnan og Grindavík mættust í oddaleik. Grindvíkingar lentu 2-0 undir í einvíginu en tryggðu sér oddaleikinn með ótrúlegri endurkomu í síðasta leik.

Engin villaVísir/Anton Brink

Grindvíkingar byrjuðu leikinn með miklum látum en Ólafur Ólafsson henti í tvo stóra partýþrista og kom Grindvíkingum í 3-10. Eftir það færðist aðeins meiri ró yfir leikinn en þetta voru einu tveir þristar Grindvíkinga í leikhlutanum og staðan að honum loknum 25-21 eftir flautukörfu frá Jase Febres.

Jase Febes sækir að körfunni. Kristófer Breki til varnarVísir/Anton Brink

Stjörnumenn keyrðu muninn svo upp í tíu stig í öðrum leikhluta en þá tóku Grindvíkingar leikhlé og náðu að rétta úr kútnum en bæði lið skoruðu 15 stig í leikhlutanum sem þýddi að áfram munaði fjórum stigum í hálfleik, 40-36.

Hinn 42 ára Hlynur Bæringsson skilaði 21 mínútu í kvöldVísir/Anton Brink

Stjörnumenn hófu seinni hálfleikinn á 11-2 áhlaupi og staðan allt í einu orðin 54-40. Fjórtán stiga munur er ansi drjúgur í leik þar sem ekki er mikið skorað, en DeAndre Kane setti síðustu körfu leikhlutans og kom muninum niður fyrir tveggja stafa tölu, staðan 62-53 fyrir lokasprettinn.

Stjörnumenn voru á þessum tímapunkti í örlitlum villuvandræðum, Jase Febres á fjórum og Shaquille Rombley á þremur en það virtist þó ekki há þeim mikið, en sóknarleikur Grindvíkingar var á köflum ansi einsleitur.

Grindvíkingar voru þó ekki tilbúnir að leggja árar í bát og minnkuðu muninn í fimm stig. Þeir hefðu mögulega verið búnir að jafna eða komnir yfir ef þeir hefðu farið betur með vítin sín, en Grindavík var búið að brenna af níu vítum á þessum tímapunkti.

Dramatíkinni í þessu einvígi var engan veginn lokið en Lagio Grantsaan jafnaði leikinn í 70-70 þegar rúm mínúta var til leiksloka. DeAndre Kane var á þeim tímapunkti farinn af velli með fimm villur.

Grindvíkingar náðu þó ekki að setja fleiri stig á töfluna og Stjörnumenn náðu að sigla sigrinum heim og eru komnir í úrslit þar sem þeir mæta Tindastóli.

Atvik leiksins

Þristurinn frá Hilmari sem kom Stjörnunni fjórum stigum yfir, 69-65, var algjör bomba. DeAndre Kane braut klaufalega á honum svo að úr varð fjögurra stiga sókn og Kane lauk leik með fimm villur en Grindvíkingar hefðu án vafa verið til í að hafa hann inni á vellinum í síðustu sóknum leiksins.

Stjörnur og skúrkar

Hilmar Smári Henningsson var stigahæstur Stjörnumanna í kvöld með 21 stig. Ægir Þór skilaði 13 stigum, átta fráköstum og sex stoðsendingum. Hann var óþreytandi að keyra á Grindvíkinga og reyndist þeim óþægur ljár í þúfu.

Ægir var erfiður við að eiga fyrir varnarmenn GrindavíkurVísir/Anton Brink

Hjá Grindavík var Lagio Grantsaan stigahæstur með 21 stig en hann steig hressilega upp í lokin í fjarveru DeAndre Kane og setti tvo stóra þrista, alveg eins og í síðasta leik. 

Kane skilaði sínu fram að 5. villunni, 16 stig, 13 fráköst, sjö stoðsendingar. Þá var Ólafur Ólafsson drjúgur með 16 stig.

Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, reyndi eins og hann gat að draga sína menn að landiVísir/Anton Brink

Dómararnir

Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Davíð Kristján Hreiðarsson. Það var nóg að gera hjá þeim en ekkert bras á mönnum. Heilt yfir ágætlega dæmdur leikur hjá þríeykinu en ég er nokkuð viss um að Grindvíkingar væru til í að sjá endursýningu á næst síðustu sókn leiksins þegar Arnór Tristan tapaði boltanum undir körfunni og ekkert dæmt. En það er eins og það er.

Stemming og umgjörð

Pakkfullt hús í Umhyggjuhöllinni og rífandi stemming. Stuðningssveitir beggja liða í miklu stuði. Ég saknaði þess samt smá að sjá ekkert ljósa „show“ í leikmannakynningum eins og mörg lið eru farin að bjóða upp á.

Þungavigtarmenn í stúkunniVísir/Anton Brink

Confettið fór aðeins of snemma á loft!Vísir/Anton Brink
Silfurskeiðin fagnaði vel í leikslokVísir/Anton Brink

Viðtöl

Baldur Þór: „Þetta er kannski fyrsti leikurinn sem manni finnst Kane og Pargo eins gamlir og þeir eru“

Baldur Þór einbeittur á bekknumVísir/Anton Brink

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, var mættur í viðtal við Andra Más eftir leik. Þar spurði Andri hvernig tilfinning það væri að vera kominn með Stjörnuna í úrslit eftir tólf ára fjarveru, en Baldur hafði ekki hugmynd um þá tölfræði.

„Ég vissi ekki einu sinni þessa tölfræði, þú ert alltaf með einhverja tölfræðimola sem eru geggjaðir. En eftir tólf ár að vera komnir í úrslit, menn hljóta að vera glaðir í Garðabænum.“

Leikurinn í kvöld þróaðist svolítið eins og síðasti leikur en að þessu sinni tókst Stjörnumönnum að bjarga sér fyrir horn.

„Þetta var komið í eitthvað „crunch, grudge“ þarna. Þetta er kannski fyrsti leikurinn sem manni finnst Kane og Pargo eins gamlir og þeir eru. Maður sá það. Ég hefði viljað vinna þennan leik mikið stærra en þetta. En þetta er bara „game five“ geðveiki. Bara ánægður með strákana, Hilmar setur risaskot, hvílíkur töffari. Bara geggjaðir strákar.“

Stjarnan skoraði ekki körfu úr opnum leik í átta mínútur í fjórða leikhluta en Hilmar Smári skar þá úr snörunni.

„Þetta var bara eitthvað rugl. Voðalega stíft eitthvað út og suður. Bara takk, Hilmar.“

Á einum tímapunkti í leiknum óð Baldur upp að aðstoðarþjálfara sínum, Inga Þór Steinþórssyni, og nánast skallaði hann. Andri sýndi Baldri endursýningu á þessu atviki en Baldur hló bara.

„Þarna var ég eitthvað að gasa. Það er bara þannig. Ég var eitthvað að kvarta yfir mínum eigin leikmanni þarna. Ég man ekki einu sinni hvað ég var að segja. En þetta er góður skalli og Ingi fílar þetta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira