Innlent

Vonast til að sam­komu­lag náist innan skamms, vonandi í dag

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir er forseti Alþingis.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er forseti Alþingis. Vísir/Anton Brink

Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis segir að fundahöld gærkvöldsins um framhald þingstarfa hafi skilað árangri. Hún vonast til þess að hægt verði að ná formlegu samkomulagi innan tíðar, vonandi strax í dag.

„Þau fleyttu okkur áfram í samtalinu og ég er bjartsýn á framhaldið,“ segir Þórunn aðspurð hvort fundahöldin hafi gengið vel í gær.

Það vekur athygli að á dagskrá þingfundar fyrir daginn í dag sem hefst klukkan tíu eru veiðigjöldin hvergi sjáanleg. Þórunn segir að lesa megi út úr því að vel hafi gengið í samræðunum í gærkvöldi. 

„Dagskrá þingfundar í dag ber þess merki að við vonumst til að ná lokasamkomulagi um þinglokin mjög bráðlega,“ segir Þórunn og bætir við að það væri gott ef það tækist í dag.

Hún vill þó ekki fara nánar út í hvað felst í því samkomulagi sem er í burðarliðnum eða hvernig fer fyrir hinu umdeilda veiðigjaldamáli. „Það er verið að vinna í því máli og það er auðvitað forsenda þess að við getum haldið áfram með þessa dagskrá eins og hún lítur út núna,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×