Að flokka hver vinnur og hver tapar Tryggvi Rúnar Brynjarsson skrifar 7. júlí 2025 12:03 Fyrir helgi rakst ég á frétt um langhlaupara sem varð fyrir því óláni að taka þrjú skref út fyrir keppnisbrautina og vera af þeim sökum dæmdur úr leik. Ákvörðunin að dæma hann úr leik vakti sýnilega hörð viðbrögð – bæði frá hlauparanum sjálfum og öðrum. Eitthvað annarlegt hlýtur að hafa legið þar að baki, er okkur sagt. Sá sem hér átti í hlut mun vera 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum. Ekki er ég hlaupari sjálfur og þekki ekki þennan margfalda meistara. Þó varð mér hugsað: Hvers vegna skiptir máli að hafa tapað einu sinni? Þrátt fyrir það vita allir sem vilja vita að hann er sá allra besti í sinni grein. Hvaða máli skiptir þá þessi eini „dómur“? Þar sem ég íhugaði þetta rifjaðist upp fyrir mér ein elsta frásögn sem mannkynið á um íþróttakeppni – og nú bið ég lesendur að sýna mér þolinmæli – en það mun vera atriði úr Ilíonskviðu Hómers um kappreiðar, haldnar til heiðurs Patróklosi, elskhuga Akkilesar sem fallið hafði í bardaga. Í þeirri sögu hlutast guðirnir til í keppninni, skakka leikinn, ýta meira að segja keppanda út af brautinni – bókstaflega. En það sem veldur uppnámi er ekki íhlutun guðanna – sem gera auðvitað það sem þeim sýnist – heldur framganga mannanna. Antílokkus, sem er í þriðja sæti, keyrir svo nærri hestavagni Menelásar, þá í öðru sæti, að sá síðarnefndi neyðist til að hægja á sér. Antílokkus kemst þannig fram úr Menelási og heldur forskoti sínu til loka keppninnar, þrátt fyrir að hans hestar séu hægari, eins og Hómer segir okkur, en hestar Menelásar. Loks kemur að því að keppendurnir sækja sín verðlaun. Fyrir fyrsta sætið átti að fást þræll, meri fyrir annað, en fyrir það þriðja einhvers konar ketill. Þegar hér er komið sögu lætur Menelás í ljós vanþóknun sína á niðurstöðunum og sakar Antílokkus um óheiðarleika. Akkiles – skipuleggjandi leikanna – biður Antílokkus í kjölfarið um að sverja þess eið að hafa ekki svindlað. Antílokkus skautar framhjá beiðni Akkilesar, en lýsir auðmjúklega yfir: „Þú ert vissulega eldri og betri, Menelás. Ég er ungur. Æskan gerir mistök. Taktu hana“ – merina semsagt – „og jafnvel meira til.“ Síst af öllu vill Antílokkus glata virðingu og „ást“ Menelásar, segir hann. Lesendur verða að afsaka öll þessi smáatriði. Ég get illa hamið mig þegar jafn merkileg heimild er annars vegar. Mér hefur einfaldlega ekki tekist betur en svo að klippa hana til þannig að tengingin við okkar samtíma verði nægilega glögg. Fræðimenn hafa bent á að það sé verðlaunaafhendingin sem í raun myndar kjarnann í frásögn Hómers um kappreiðarnar. Keppnin sjálf er aðeins leikrit, sviðsetning á þeirri röð og reglu, þeim sannleika, sem liggur fyrir frá upphafi. Við vitum raunar allt sem máli skiptir áður en vagnarnir taka á rás. Hvers kyns truflanir – hvort sem er frá keppendum sjálfum eða guðunum – eru því ekki annað en tilraunir til að hylja sannleikann sem öllum er þó ljós. Eftirfarandi spurning verður því áleitin: Hvernig á að endurreisa sannleikann – hina raunverulegu goggunarröð keppendanna – þegar henni hefur verið raskað með óheiðarlegum hætti? Michel Foucault, sem sannarlega telst ofarlega í goggunarröð fræðimanna 20. aldarinnar, gengur enn lengra. Hann leggur til að það sé nákvæmlega þessi dramatík – þar sem sannleikurinn um það hver er sterkastur og mestur er fyrirfram gefinn, en þarf að vera staðfestur í formi einhvers konar keppni eða einvígis – sem liggur við rætur sjálfs réttarfars Vesturlanda. Þarna fyrst finnur hann hugmyndina um að andstæðingar etji kappi frammi fyrir dómara ekki til að komast að sannleikanum, heldur til að sviðsetja hann. Ef við snúum okkur aftur að hlaupabrautinni í Reykjavík þá er augljóst að þeim mesta og besta var þar synjað um staðfestingu þess efnis. Þar með má segja að sjálfum sannleikanum hafi verið hafnað, á vafasömum grundvelli í þokkabót, og við sitjum uppi með úrslit sem endurspegla afbakaða mynd af veruleikanum. Við vitum hver átti að fá merina – en hún fór annað. Þetta, hugsa ég, hlýtur að útskýra það mikla uppnám sem uppátæki dómarans á hlaupabrautinni olli. Þannig speglar líka hið smáa mál hlauparans að vissu leyti stærri veruleika sem blasir við samfélaginu. Ég er að hugsa um þann gríðarstóra sess sem fjárhættuspila- og veðmálaiðnaðurinn hefur tekið sér í vestrænum samfélögum – þvert á aldur, stéttir og búsetu (en þó síður kyn). Getspárnar eru orðnar hinar nýju véfréttir; þær tjá okkur hvað muni gerast áður en það gerist – gjarnan á grundvelli þess hversu miklir peningar hafa verið lagðir undir tiltekna sviðsmynd. Þeim mun meiri peningar sem eru í spilinu, þeim mun nákvæmari mun spáin vera. Þannig endurspeglar veðmálamarkaðurinn ekki bara skoðanir fólks – hann framleiðir ákveðna tilfinningu um hvað er satt og rétt. Enda má ætla að fólk leggi ekki peninginn sinn að baki bara hverju sem er. Það telur sig væntanlega búa yfir einhverri vitneskju um það sem veðjað er á. (Að þessu leyti sker getspáin sig frá systur sinni, spilakassanum.) Líkurnar á að 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum sigri í næsta hlaupi hljóta t.d. að teljast mjög miklar – svo miklar í raun að þær mætti kalla skýlausan sannleika. Þegar mannskepnan er annars vegar breytist ekkert á sama tíma og öll umgjörð breytist. Nú er það markaðurinn sem við treystum á til að segja okkur hver er sterkastur og bestur. Þegar niðurstöður stríða svo gegn væntingum, þegar hlutirnir fara ekki eins og þeir áttu að fara, er ekki skrýtið að fólk upplifi það sem ranglæti og missi stjórn á skapi sínu. Lífið verður ein rússíbanareið og alls óvíst hvort menn komast af vagninum í heilu lagi. Skuggahliðar íþróttanna eru þannig ekki bara innbyggðar í fjárhættuspilaiðnaðinn; þar finna þær sínar ýktustu og alvarlegustu myndir. Þrátt fyrir að sú sé raunin krefjast ríkisbatterí á borð við Happdrætti Háskóla Íslands þess að fá til sín enn stærri sneiðar af þessum eitraða iðnaði. Á þeim bæjum er takmörkuð samfélagssýn. Viljinn til gróða er það eina sem sést. Utan þeirra sjálfra er aldrei spurt hverjir raunverulega tapa og til hvaða ráða mætti grípa áður en menn verða fyrir óafturkræfum skaða. Samfélagið er þannig sjálft bersýnilega farið langt út af brautinni. Það er kominn tími til að girða hana af. Höfundur er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Tryggvi Rúnar Brynjarsson Mest lesið Ríkissjóður snuðaður um stórar fjárhæðir Sigurjón Þórðarson Skoðun Lágkúrulegur hversdagsleiki illskunnar Guðný Gústafsdóttir Skoðun Áfengi og íþróttir eiga enga samleið – áskorun til þingfulltrúa UMFÍ Árni Guðmundsson Skoðun Er verið að blekkja almenning og sjómenn? Einar Hannes Harðarson Skoðun Fögur fyrirheit sem urðu að engu Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skoðun Stóra skekkjan í 13 ára aldurstakmarki samfélagsmiðla Skúli Bragi Geirdal Skoðun Aðskilnaðurinn hlær Þórdís Hólm Filipsdóttir Skoðun Lífsskoðunarfélagið Farsæld tekur upp slitinn þráð siðmenntunar Svanur Sigurbjörnsson Skoðun Við viljum nafn Jón Kaldal Skoðun Væntingar á villigötum Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Skoðun Skoðun Enn ríkir áhugaleysi um afdrif fósturbarna Guðlaugur Kristmundsson,Sigurgeir B. Þórisson skrifar Skoðun Við viljum nafn Jón Kaldal skrifar Skoðun Stóra skekkjan í 13 ára aldurstakmarki samfélagsmiðla Skúli Bragi Geirdal skrifar Skoðun Er verið að blekkja almenning og sjómenn? Einar Hannes Harðarson skrifar Skoðun Væntingar á villigötum Hjálmtýr Heiðdal skrifar Skoðun Aðskilnaðurinn hlær Þórdís Hólm Filipsdóttir skrifar Skoðun Lágkúrulegur hversdagsleiki illskunnar Guðný Gústafsdóttir skrifar Skoðun Glerþakið brotið á alþjóðlega sjónverndardaginn Sigþór U. Hallfreðsson skrifar Skoðun Fögur fyrirheit sem urðu að engu Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson skrifar Skoðun Ríkissjóður snuðaður um stórar fjárhæðir Sigurjón Þórðarson skrifar Skoðun Áfengi og íþróttir eiga enga samleið – áskorun til þingfulltrúa UMFÍ Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Lífsskoðunarfélagið Farsæld tekur upp slitinn þráð siðmenntunar Svanur Sigurbjörnsson skrifar Skoðun Ruben Amorim og sveigjanleiki – hugleiðingar sálfræðings Andri Hrafn Sigurðsson skrifar Skoðun Framtíðarsýn í samgöngumálum er mosavaxin Sigurður Páll Jónsson skrifar Skoðun Fimmta iðnbyltingin krefst svara – strax Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Hefur þú skoðanir? Jóhannes Óli Sveinsson skrifar Skoðun Er hurð bara hurð? Sölvi Breiðfjörð skrifar Skoðun Reykjavíkurmódel á kvennaári Sóley Tómasdóttir skrifar Skoðun Ekki er allt sem sýnist Valerio Gargiulo skrifar Skoðun Sýndu þér umhyggju – Komdu í skimun Ágúst Ingi Ágústsson skrifar Skoðun Eru Bændasamtökin á móti valdeflingu bænda? Ólafur Stephensen skrifar Skoðun Er lægsta verðið alltaf hagstæðast? Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir skrifar Skoðun Landbúnaðarrúnk Hlédís Sveinsdóttir skrifar Skoðun Jesús who? Atli Þórðarson skrifar Skoðun Opið bréf til Miðflokksmanna Snorri Másson skrifar Skoðun Lesskilningur eða lesblinda??? Jóhannes Jóhannesson skrifar Skoðun Henti Íslandi undir strætisvagninn Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Forvarnateymi grunnskóla – góð hugmynd sem má ekki sofna Eydís Ásbjörnsdóttir skrifar Skoðun Opnum Tröllaskagann Helgi Jóhannsson skrifar Skoðun Ávinningur af endurhæfingu – aukum lífsgæðin Ólafur H. Jóhannsson skrifar Sjá meira
Fyrir helgi rakst ég á frétt um langhlaupara sem varð fyrir því óláni að taka þrjú skref út fyrir keppnisbrautina og vera af þeim sökum dæmdur úr leik. Ákvörðunin að dæma hann úr leik vakti sýnilega hörð viðbrögð – bæði frá hlauparanum sjálfum og öðrum. Eitthvað annarlegt hlýtur að hafa legið þar að baki, er okkur sagt. Sá sem hér átti í hlut mun vera 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum. Ekki er ég hlaupari sjálfur og þekki ekki þennan margfalda meistara. Þó varð mér hugsað: Hvers vegna skiptir máli að hafa tapað einu sinni? Þrátt fyrir það vita allir sem vilja vita að hann er sá allra besti í sinni grein. Hvaða máli skiptir þá þessi eini „dómur“? Þar sem ég íhugaði þetta rifjaðist upp fyrir mér ein elsta frásögn sem mannkynið á um íþróttakeppni – og nú bið ég lesendur að sýna mér þolinmæli – en það mun vera atriði úr Ilíonskviðu Hómers um kappreiðar, haldnar til heiðurs Patróklosi, elskhuga Akkilesar sem fallið hafði í bardaga. Í þeirri sögu hlutast guðirnir til í keppninni, skakka leikinn, ýta meira að segja keppanda út af brautinni – bókstaflega. En það sem veldur uppnámi er ekki íhlutun guðanna – sem gera auðvitað það sem þeim sýnist – heldur framganga mannanna. Antílokkus, sem er í þriðja sæti, keyrir svo nærri hestavagni Menelásar, þá í öðru sæti, að sá síðarnefndi neyðist til að hægja á sér. Antílokkus kemst þannig fram úr Menelási og heldur forskoti sínu til loka keppninnar, þrátt fyrir að hans hestar séu hægari, eins og Hómer segir okkur, en hestar Menelásar. Loks kemur að því að keppendurnir sækja sín verðlaun. Fyrir fyrsta sætið átti að fást þræll, meri fyrir annað, en fyrir það þriðja einhvers konar ketill. Þegar hér er komið sögu lætur Menelás í ljós vanþóknun sína á niðurstöðunum og sakar Antílokkus um óheiðarleika. Akkiles – skipuleggjandi leikanna – biður Antílokkus í kjölfarið um að sverja þess eið að hafa ekki svindlað. Antílokkus skautar framhjá beiðni Akkilesar, en lýsir auðmjúklega yfir: „Þú ert vissulega eldri og betri, Menelás. Ég er ungur. Æskan gerir mistök. Taktu hana“ – merina semsagt – „og jafnvel meira til.“ Síst af öllu vill Antílokkus glata virðingu og „ást“ Menelásar, segir hann. Lesendur verða að afsaka öll þessi smáatriði. Ég get illa hamið mig þegar jafn merkileg heimild er annars vegar. Mér hefur einfaldlega ekki tekist betur en svo að klippa hana til þannig að tengingin við okkar samtíma verði nægilega glögg. Fræðimenn hafa bent á að það sé verðlaunaafhendingin sem í raun myndar kjarnann í frásögn Hómers um kappreiðarnar. Keppnin sjálf er aðeins leikrit, sviðsetning á þeirri röð og reglu, þeim sannleika, sem liggur fyrir frá upphafi. Við vitum raunar allt sem máli skiptir áður en vagnarnir taka á rás. Hvers kyns truflanir – hvort sem er frá keppendum sjálfum eða guðunum – eru því ekki annað en tilraunir til að hylja sannleikann sem öllum er þó ljós. Eftirfarandi spurning verður því áleitin: Hvernig á að endurreisa sannleikann – hina raunverulegu goggunarröð keppendanna – þegar henni hefur verið raskað með óheiðarlegum hætti? Michel Foucault, sem sannarlega telst ofarlega í goggunarröð fræðimanna 20. aldarinnar, gengur enn lengra. Hann leggur til að það sé nákvæmlega þessi dramatík – þar sem sannleikurinn um það hver er sterkastur og mestur er fyrirfram gefinn, en þarf að vera staðfestur í formi einhvers konar keppni eða einvígis – sem liggur við rætur sjálfs réttarfars Vesturlanda. Þarna fyrst finnur hann hugmyndina um að andstæðingar etji kappi frammi fyrir dómara ekki til að komast að sannleikanum, heldur til að sviðsetja hann. Ef við snúum okkur aftur að hlaupabrautinni í Reykjavík þá er augljóst að þeim mesta og besta var þar synjað um staðfestingu þess efnis. Þar með má segja að sjálfum sannleikanum hafi verið hafnað, á vafasömum grundvelli í þokkabót, og við sitjum uppi með úrslit sem endurspegla afbakaða mynd af veruleikanum. Við vitum hver átti að fá merina – en hún fór annað. Þetta, hugsa ég, hlýtur að útskýra það mikla uppnám sem uppátæki dómarans á hlaupabrautinni olli. Þannig speglar líka hið smáa mál hlauparans að vissu leyti stærri veruleika sem blasir við samfélaginu. Ég er að hugsa um þann gríðarstóra sess sem fjárhættuspila- og veðmálaiðnaðurinn hefur tekið sér í vestrænum samfélögum – þvert á aldur, stéttir og búsetu (en þó síður kyn). Getspárnar eru orðnar hinar nýju véfréttir; þær tjá okkur hvað muni gerast áður en það gerist – gjarnan á grundvelli þess hversu miklir peningar hafa verið lagðir undir tiltekna sviðsmynd. Þeim mun meiri peningar sem eru í spilinu, þeim mun nákvæmari mun spáin vera. Þannig endurspeglar veðmálamarkaðurinn ekki bara skoðanir fólks – hann framleiðir ákveðna tilfinningu um hvað er satt og rétt. Enda má ætla að fólk leggi ekki peninginn sinn að baki bara hverju sem er. Það telur sig væntanlega búa yfir einhverri vitneskju um það sem veðjað er á. (Að þessu leyti sker getspáin sig frá systur sinni, spilakassanum.) Líkurnar á að 68-faldur Íslandsmeistari í langhlaupum sigri í næsta hlaupi hljóta t.d. að teljast mjög miklar – svo miklar í raun að þær mætti kalla skýlausan sannleika. Þegar mannskepnan er annars vegar breytist ekkert á sama tíma og öll umgjörð breytist. Nú er það markaðurinn sem við treystum á til að segja okkur hver er sterkastur og bestur. Þegar niðurstöður stríða svo gegn væntingum, þegar hlutirnir fara ekki eins og þeir áttu að fara, er ekki skrýtið að fólk upplifi það sem ranglæti og missi stjórn á skapi sínu. Lífið verður ein rússíbanareið og alls óvíst hvort menn komast af vagninum í heilu lagi. Skuggahliðar íþróttanna eru þannig ekki bara innbyggðar í fjárhættuspilaiðnaðinn; þar finna þær sínar ýktustu og alvarlegustu myndir. Þrátt fyrir að sú sé raunin krefjast ríkisbatterí á borð við Happdrætti Háskóla Íslands þess að fá til sín enn stærri sneiðar af þessum eitraða iðnaði. Á þeim bæjum er takmörkuð samfélagssýn. Viljinn til gróða er það eina sem sést. Utan þeirra sjálfra er aldrei spurt hverjir raunverulega tapa og til hvaða ráða mætti grípa áður en menn verða fyrir óafturkræfum skaða. Samfélagið er þannig sjálft bersýnilega farið langt út af brautinni. Það er kominn tími til að girða hana af. Höfundur er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands
Skoðun Enn ríkir áhugaleysi um afdrif fósturbarna Guðlaugur Kristmundsson,Sigurgeir B. Þórisson skrifar
Skoðun Áfengi og íþróttir eiga enga samleið – áskorun til þingfulltrúa UMFÍ Árni Guðmundsson skrifar
Skoðun Lífsskoðunarfélagið Farsæld tekur upp slitinn þráð siðmenntunar Svanur Sigurbjörnsson skrifar