Innlent

„Nú verður að hafa hraðar hendur“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson er umhverfis- orku og loftslagsmálaráðherra.
Jóhann Páll Jóhannsson er umhverfis- orku og loftslagsmálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku og loftslagsmálaráðherra, segir það slæmar fréttir að Hæstiréttur hafi staðfest ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Góðu fréttirnar séu þær að lögunum hafi verið breytt og sótt verði um nýtt leyfi á grundvelli þeirra.

Hæstiréttur staðfesti í dag ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Undirbúningsframkvæmdir vegna virkjunarinnar eru þegar komnar langt á veg. Dómurinn hefur ekki verið birtur og því liggja forsendur hans ekki fyrir að svo stöddu.

Dómur dæmdur út frá gömlu lögunum

„Nú verður að hafa hraðar hendur og fyrirbyggja tafir og fjárhagstjón. Góðu fréttirnar eru þær að með frumvarpinu sem ég lagði strax fram í febrúar er búið að lagfæra þau lagaákvæði og þann óskýrleika sem virkjunarleyfið strandaði á,“ segir Jóhann Páll.

„Ég geri ráð fyrir að nú verði sótt um nýtt leyfi á grundvelli nýju laganna þar sem lögmæti þess að breyta vatnshloti vegna virkjanaframkvæmda er hafið yfir allan vafa.“

Öllu máli skipti að ekki verði frekari tafir á málinu.

Í fréttum Sýnar á dögunum var rifjað upp að það var í janúar síðastliðinn sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi. Mánuði síðar lagði Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis- og orkumála, lagafrumvarp fram á Alþingi í því skyni að eyða óvissu um virkjunina.

Alþingi samþykkti frumvarpið og ráðherra fagnaði því sérstaklega þegar hann hafði sent það forseta Íslands til undirritunar. Sagði óvissu um Hvammsvirkjun hafa verið eytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×