Innlent

Upp­sagnir sjó­manna í Grinda­vík: „Hve­nær er nóg, nóg?“

Jón Ísak Ragnarsson og Árni Sæberg skrifa
Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, ásamt syni sínum.
Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, ásamt syni sínum. Vísir/Ívar Fannar

Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, segir hljóðið þungt í félagsmönnum hans vegna uppsagna sjómanna Einhamars í Grindavík. Forstjóri félagsins segir aðeins um skipulagsbreytingar að ræða og sjómenn verði ráðnir á ný eftir að hafa unnið sex mánaða uppsagnarfrest. Þá verði stöður sameinaðar en sjómönnum ekki fækkað. Einar Hannes gefur lítið fyrir þessar skýringar.

„Ég held að þetta sé á mjög gráu svæði, þar sem túrarnir á þessum skipum eru allt upp í tvo sólarhringa, þeir mega ekki fara yfir fjórtán klukkustundir, sem er einsdæmi ef þeir ná því,“ segir Einar.

„Nú þurfum við í verkalýðshreyfingunni bara að herja á bæði Samgöngustofu og vaktstöðu siglinga, til þess að menn séu rétt skráðir um borð í þessi skip.“

Þá segir hann ekki rétt að sjómennirnir sem sagt var upp séu aðeins fjórir.

„Þeir segja að það séu fjórir starfsmenn Einhamars sem er sagt upp, sem getur verið rétt, en hann er með þetta í þremur félögum. Hann er með þetta í Elvis ehf., Hlöðum og Einhamri, þannig þetta eru þrjú félög sem eru undir.“

Og þá fleiri sjómenn eða hvað?

„Já miðað við það sem hann segir við ykkur, þetta eru ekki fjórir sjómenn, þetta eru fimmtán til tuttugu sjómenn.“

Útgerðin segi bara það sem hentar

Einar gefur einnig lítið fyrir skýringar Einhamars, sem fullyrtu að ráðast þyrfti í skipulagsbreytingar vegna minnkandi aflaheimilda og hækkunar veiðigjalda.

„Útgerðarmenn segja bara það sem hentar núna. Einhamar seafood skilaði næstum því 600 milljón króna hagnaði í fyrra. Hvenær er nóg, nóg?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×