Körfubolti

Stjórn­endur NBA reyna að sann­færa Real Madrid og fleiri for­rík fé­lög

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Adam Silver er æðsti prestur innan NBA.
Adam Silver er æðsti prestur innan NBA. Matthew Stockman/Getty Images

Framkvæmdastjórinn Adam Silver og fleiri hæstráðendur NBA deildarinnar sóttu fundi víðsvegar um Evrópu í vikunni og voru síðast staddir í Madríd, höfuðborg Spánar. Stefnan er að stofna sameiginlega NBA-Evrópudeild á næstu árum. Með því að sannfæra Real Madrid um að taka þátt yrði stórt skref stigið í þá átt en fundir hafa verið haldnir með fleiri félögum.

Real Madrid er stórveldi í evrópskum körfubolta og eitt af liðunum sem á fast sæti í EuroLeague, en sá samningur rennur út á næsta ári.

NBA reynir nú að sannfæra Real Madrid um að segja skilið við EuroLeague og taka þátt í stofnun sameiginlegrar NBA-Evrópudeildar, eftir því sem kemur fram í umfjöllun The Athletic. Þar segir að ef Real Madrid slæst í hópinn muni önnur stórlið fylgja.

Sameiginlega NBA-Evrópudeildin, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði að raunleika, yrði sextán liða keppni liða úr NBA og EuroLeague, ásamt nýjum liðum úr stórborgum Evrópu. Einhver lið myndu eiga fast sæti í deildinni og önnur lið myndu öðlast þátttökurétt með góðum árangri í deildunum heima fyrir. 

Funduðu líka í Lundúnum og fara næst til Parísar

NBA bindur ekki allar sínar vonir við Real Madrid og hefur fundað með fleirum.

Fyrr í vikunni voru Adam Silver og stjórnendur NBA í Lundúnum, þar sem var gerður samningur um að NBA leikur Orlando Magic og Memphis Grizzlies fari fram í borginni í janúar.

Þeir nýttu ferðina og funduðu í leiðinni með forráðamönnum fjögurra fjárfestingafyrirtækja, sem eru sögð áhugasöm um að stofna lið í NBA-Evrópudeildinni.

Auk þess funduðu þeir í Lundúnum með forráðamönnum tyrkneska stórliðsins Galatasaray, sem er sagt áhugasamt um að taka þátt.

Adam Silver og föruneyti hans mun næst fljúga til Parísar, höfuðborgar Frakklands, til að halda áfram samtali við eigendur PSG um að stofna körfuboltalið sem myndi taka þátt í deildinni.

Martin og félagar gætu verið með

Stjórnendur NBA hafa einnig hitt forráðamenn Alba Berlin í Þýskalandi, til að ræða möguleikann á því að fá liðið til að taka þátt í NBA-Evrópudeildinni.

Alba Berlin tilkynnti í vor að liðið myndi ekki taka þátt í EuroLeague, sem er talið vera merki um áhuga á NBA-Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×