Erlent

Elskar aug­lýsingarnar með Sweeney fyrst hún er Repúblikani

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Trump fagnar því að Sweeney sé skráður Repúblikani og dýrkar auglýsingar hennar fyrir vikið.
Trump fagnar því að Sweeney sé skráður Repúblikani og dýrkar auglýsingar hennar fyrir vikið. Getty/American Eagle

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist elska auglýsingaherferð American Eagle með Sydney Sweeney, sem hefur verið sögð taktlaus og innihalda kynþáttahyggju, eftir að kom í ljós að leikkonan væri skráður Repúblikani.

Auglýsingaherferð fatamerkisins American Eagle fyrir nýja gallabuxnalínu hefur farið misvel ofan í fólk. Leikkonan Swydney Sweeney prýðir herferðina og er yfirskrift hennar „Sydney Sweeney has great jeans“ sem er orðaleikur vegna þess að gallabuxur og gen (jeans/genes) hljóma eins. 

Mörgum hefur þótt slíkt genatal ýta undir kynþáttahyggju meðan öðrum þykir málið ekki svo alvarlegt og enn aðrir fagna því að fatamerkið sé óhrætt í nálgun sinni.

Eftir umfjöllun og umræðuna eru fjölmiðlar búnir að grafa upp að frá 14. júní 2024 hafi Sydney Sweeney verið skráð í Repúblikanaflokkinn í Monroe-sýslu í Flórída. Sweeney var þá nýbúin að kaupa sér villu í Florida Keys og reyndar var líka nýbúið að dæma Donald Trump í New York fyrir skjalafals í þagnargreiðslumáli Stormy Daniels

Donald Trump var á leið í þyrlu forsetaembættisins í gær þegar hann var spurður út í auglýsingaherferðina og þá staðreynd að Sydney Sweeney væri skráður Repúblikani.

„Er hún skráður Repúblikani?“ svaraði Trump og bætti við: „Ó, nú elska ég auglýsinguna hennar.“

„Það kæmi þér á óvart hve margir eru Repúblikanar. Ég hefði ekki vitað af þessu en ég er glaður að þú sagðir mér þetta. Ef Sydney Sweeney er skráður Repúblikani finnst mér auglýsingin hennar meiriháttar,“ sagði hann svo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×